Innlent

Oddviti Samfylkingarinnar vill að Árni segi af sér

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Árni Sigfússon er bæjarstjóri í Reykjanesbæ.
Árni Sigfússon er bæjarstjóri í Reykjanesbæ. Mynd/ Pjetur.
Friðjón Einarsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ, krefst afsagnar Árna Sigfússonar bæjarstjóra eða að hann biðjist afsökunar. Friðjón segir að það sé staðfest að Árni hafi brotið stjórnsýslulög og samþykktir Reykjanesbæjar þegar hann ákvað að leggja ekki fyrir bæjarráð innsend drög að viljayfirlýsingu um uppbyggingu innviða í Helguvík og Reykjanesbæ frá Katrínu Júlíusdóttur, fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir hönd Ríkistjórnar Íslands.

Hann segir það vera til háborinnar skammar að hann, sem bæjarfulltrúi, þurfi að lesa það í fjölmiðlum að Ríkistjórn Íslands hafi nú þegar lagt fram drög að viljayfirlýsingu til umræðu í bæjarráði og að henni hafi ekki verið svarað eða kynnt fyrir kjörnum fulltrúum.

„Það er ekki hlutverk bæjarstjóra að taka ákvörðun um svona stór mál án þess að ráðfæra sig við bæjarstjórn og bæjarráð. Þetta er ekki einkamál Árna Sigfússonar né meirihluta sjálfstæðismanna í Bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Þetta er alvarlegt brot á stjórnsýslu og ekki í fyrsta sinn sem bæjarstjórinn verður uppvís að slælegum vinnubrögðum," segir Friðjón.

Hann segir að það sé þyngra en tárum taki að hlusta á bæjarstjóra Reykjanesbæjar, Árna Sigfússon, kenna öðrum um erfiða stöðu Reykjanesbæjar og Helguvíkur. „Það er alltaf öðrum um að kenna og aldrei honum sjálfum sem leitt hefur Reykjanesbæ í hinar mestu ógöngur með óráðssíu og villtum fjárfestingum," segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×