Innlent

Ætlaði að draga upp mynd af áhugaverðum leiðtoga

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Segja má að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Sigríður Dögg Auðunsdóttir séu komin í ritdeilu.
Segja má að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Sigríður Dögg Auðunsdóttir séu komin í ritdeilu.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, ritstjóri Fréttatímans, segir að tilgangur viðtals síns við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formanns Framsóknarflokksins, hafi verið að draga upp mynd af áhugaverðum og umtöluðum stjórnmálaleiðtoga.

„Aðdróttanir um að ég hafi með viðtalinu ætlað að gera honum óleik eru rangar enda væri það andstætt sannfæringu minni og þeirri heiðarlegu blaðmennsku sem ég ástunda," segir Sigríður Dögg.

Sigríður Dögg segir að Sigmundur Davíð haldi því ranglega fram á vefsíðu sinni í dag að hún hafi ekki tekið til greina leiðréttingar sem hann gerði á viðtalinu fyrir birtingu þess í Fréttatímanum. Beinar og óbeinar tilvitnanir í Sigmund hafi hún sent honum í tölupósti áður en viðtalið fór í prentun. Allar leiðréttingar hans hafi verið teknar til greina og viðtalinu breytt í samræmi við hans óskir.

Orðrétt er yfirlýsing Sigríðar Daggar Auðunsdóttir svohljóðandi:



„Vegna umræðu um viðtal mitt við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins, sem birtist í Fréttatímanum í dag, vil ég taka eftirfarandi fram:

Sigmundur Davíð heldur því ranglega fram á vefsíðu sinni í dag að ég hafi ekki tekið til greina leiðréttingar sem hann gerði á viðtalinu fyrir birtingu þess í Fréttatímanum. Beinar og óbeinar tilvitnanir í Sigmund sendi ég honum í tölupósti áður en viðtalið fór í prentun. Allar leiðréttingar hans voru teknar til greina og viðtalinu breytt í samræmi við hans óskir.

Tilgangur viðtalsins var að draga upp mynd af áhugaverðum og umtöluðum stjórnmálaleiðtoga. Aðdróttanir um að ég hafi með viðtalinu ætlað að gera honum óleik eru rangar enda væri það andstætt sannfæringu minni og þeirri heiðarlegu blaðmennsku sem ég ástunda.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, ritstjóri."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×