Íslenski boltinn

David James ekki í markinu í kvöld

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
David James með MBE orðuna sem hann fékk í haust.
David James með MBE orðuna sem hann fékk í haust. Nordicphotos/AFP
Ekkert verður af því að David James spili sinn fyrsta leik fyrir ÍBV þegar liðið mætir Fylki í Lengjubikarnum í kvöld. Þetta staðfesti Hermann Hreiðarsson, þjálfari liðsins, í samtali við fréttastofu.

James gekk í raðir ÍBV síðastliðinn þriðjudag en hann hafði verið orðaður við liðið í töluverðan tíma. Orðrómur hefur verið uppi um að James yrði í markinu gegn Fylki í Árbænum í kvöld en svo verður ekki. James er á Englandi og hefur þess utan ekki fengið leikheimild hjá KSÍ. Það ætti þó að vera formsatriði þegar Eyjamenn óska eftir heimildinni.

Eyjamenn eru á leið í æfingaferð til Englands og þar mun James bæði æfa og spila með liðinu. ÍBV mun meðal annars mæta liði Portsmouth sem Hermann og James urðu bikarmeistarar með vorið 2008.

Hermann staðfesti einnig í samtali við fréttastofu að hann væri að horfa í kringum sig eftir auknum liðsstyrk. Hann væri með erlenda leikmenn í sigtinu.

ÍBV getur náð Fylki að stigum í 3. sæti riðilsins með sigri í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×