Handbolti

Bjarki Már undir smásjánni hjá Medvedi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bjarki Már Elísson
Bjarki Már Elísson Mynd/Valli
Bjarki Már Elísson, leikmaður HK og landsliðsmaður í handbolta, er undir smásjánni hjá Rússneska stórliðinu Chekhovskiye Medvedi sem mætir einmitt Íslendingaliðinu Kiel í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar í handbolta. Þetta kom fram hjá Herði Magnússyni í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Samkvæmt heimildum íþróttadeildar Stöðvar tvö þá vilja forráðamenn Medvedi fá Bjarka Má til reynslu með samning í huga fyrir næstu leiktíð. Bjarki Már gæti með þessu orðið fyrsti íslenski leikmaðurinn sem spilar í Rússlandi.

Medvedi er stórlið í handboltanum og með liðinu leika margir rússneskir landsliðsmenn. Þjálfari liðsins er hinn goðsagnakenndi Vladimir Maksimov fyrrverandi landsliðsþjálfari og leikmaður rússneska og sovéska landsliðsins.

Timur Dibirow spilar sem vinstri hornamaður hjá Medvedi í dag en hann sló í gegn á HM á Spáni og var meðal annars valinn í úrvalslið HM. Það er líklegt að Dibirow sé að fara til nýs liðs í sumar og að Medvedi sé að leita að eftirmanni hans.

Bjarki Már Elísson varð Íslandsmeistari með HK á síðasta tímabili en lítið hefur gengið hjá liðinu í titilvörninni. Bjarki er samt langmarkahæsti leikmaður liðsins í N1 deildinni með 125 mörk í 18 leikjum eða meira 70 mörkum meira en næsti maður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×