Tíska og hönnun

Hjólin byrjuðu fyrst að snúast með hjálp eiginmannsins

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Kúluhálsmen Hlínar Reykdal hafa á stuttum tíma orðin gífurlega vinsæl á Íslandi og leyndust mörg slík í jólapökkum landsmanna síðustu jól. Hlín gerir hálsmenin í nánu samstarfi við eiginmann sinn og engin tvö eru eins. Hún segir hjólin fyrst hafa byrjað að snúast almennilega þegar hann kom inn í framleiðsluna.

Hlín útskrifaðist sem fatahönnuður úr Listaháskóla Íslands árið 2009. Hugmyndin að hálsmenunum varð til út frá útskriftarlínu hennar og hefur sífellt verið að þróast síðan þá.

Fallegt hálsmen úr nýjustu línu Hlínar. Mynd: Nanna Dís Jónsdóttir.
Hver er hugmyndafræðin á bak við þessu hálsmen sem svo margir eiga?

Engin tvö hálsmen er eins. Þau eru öll handgerð og allt gert frá grunni, silkið í þeim er handlitað og hver einasta perla er handmáluð, en ég blanda litina mína til að fá háréttan lit með bestu fáanlegu litunum. Hvert hálsmen er einstakt í litasamsetningu og raða ég sjálf í hvert eitt og einasta.

Hvar eru hálsmenin búin til?

Þau eru öll framleidd hér heima. Við erum tvö í framleiðslunni og rekstrinum, ég og maðurinn minn, og svo er ein frábær stelpa í hlutastarfi hjá okkur. Hjólin byrjuðu í raun og veru ekki að rúlla fyrr en maðurinn minn kom inn í þetta. Við vinnum frábærlega saman hjónin en hann er verkfræðingur að mennt. Það sem ég hef ekki hefur hann og öfugt. Við leggjum mikið upp úr vönduðum vinnubrögðum og nákvæmni, við elskum það sem við erum að gera og viljum gera það vel.

Segðu okkur aðeins frá viðbrögðunum sem þið hafið fengið?

Þau hafa verið alveg hreint frábær og kannski voru hálsmen af þessu tagi eitthvað sem vantaði á markaðinn. Þau eru falleg og litrík og poppa upp hvaða einfalda kjól sem er. Svo eigum við frábæra kúnna sem tala fallega um vöruna okkar og er það stór partur af velgengninni.

Er eitthvað spennandi framundan hjá Hlín Reykdal?

Já, hönnunarmars er á næsta leiti og verð ég hér og þar.

Hér eru hálsmen Hlínar á Facebook.

Hlinreykdal.com

Hlín Reykdal. Mynd: Kolfinna.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×