Sport

Aníta náði Íslandsmeti fjórðu helgina í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aníta Hinriksdóttir.
Aníta Hinriksdóttir. Mynd/Vilhelm
Aníta Hinriksdóttir náði þeim magnaða árangri um helgina að setja Íslandsmet fjórðu helgina í röð. Hinar þrjár helgarinnar setti hún metin í einstaklingsgreinum en að þessu sinni hjálpaði hún kvennasveit ÍR að setja Íslandsmet í boðhlaupi.

Kvennasveit ÍR setti nýtt Íslandsmet í 4x400 m boðhlaupi á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum þegar þær komu í mark á tímanum 3 mínútur 49,12 sekúndum en þær bættu gamla metið um tæpar fimm sekúndur. Eldra met átti sveit ÍR sett árið 2011. Þetta er líka met í flokki stúlkna 22 og 19 ára og yngri.

Sveit ÍR skipuðu þær Arna Stefanía Guðmundsdóttir, Björg Gunnarsdóttir, Dóróthea Jóhannesdóttir og svo að sjálfsögðu Aníta Hinriksdóttir.

Aníta náði EM-lágmarki í 400 metra hlaupi á laugardaginn og vann 800 metra hlaupið í gær en setti þó ekki met sem þykir orðið til tíðinda eftir frammistöðu þessarar sextán ára stelpu að undanförnu.

Aníta setti samt ný aldursflokka-Íslandsmet í 400 m hlaupinu sem hún hljóp á 54,42 sekúndum en þetta glæsilega hlaup hennar er met í flokkum 16-17 ára, 18-19 ára og 20-22 ára. Aníta setti líka met í þessum flokkum þegar hún setti Íslandsmetin í 800 og 1500 metra hlaupum á síðustu helgum.



Íslandsmet fullorðinna hjá Anítu fjórar helgar í röð:

Reykjavíkurleikarnir 19. janúar

800 metra hlaup (2:04,79 mínútur)

Stórmót ÍR 27. janúar

1500 metra hlaup (4:19,57 mínútur)

Meistaramót Íslands 15-22 ára 2. febrúar

800 metra hlaup (2:03,27 mínútur)

Meistaramót Íslands 10. febrúar:

4x400 m boðhlaup með kvennasveit ÍR (3:49,12 mínútur)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×