Íslenski boltinn

Kóngar, Fákar og Vatnaliljur mæta til leiks í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Daníel
Mótanefnd Knattspyrnusambands Íslands hefur nú gefið út riðlaskiptingu í 1. deild kvenna og 4. deild karla fyrir keppnistímabilið 2013 en þetta kemur fram á heimasíðu sambandsins. Þar má nú einnig finna drög að leikjaniðurröðun í þessum deildum.

Karlalið Víkings úr Ólafsvík verður með í Pepsi-deild karla í fyrsta sinn í sumar og þá er kvennalið félagsins einnig með en stelpurnar úr Ólafsvík eru eina nýja liðið í 1. deild kvenna. Víkingur Ólafsvík var síðast með í kvennadeildinni 2003, þá sem hluti af liði HSH.

Í 4. deild karla er leikið í þremur riðlum, þar sem níu félög eru í A riðli en átta í B og C riðli. Leikin er tvöföld umferð áður en kemur að átta liða úrslitakeppni. Þangað komast tvö efstu félögin úr hverjum riðli ásamt þeim tveimur félögum sem bestan árangur hafa í þriðja sæti riðlanna.

Það koma níu ný félög til leiks í sumar en þrjú hætta keppni; Björninn, Drangey og SR. Hér fyrir neðan má sjá þessi nýju félög í íslenskum fótbolta þó fjögur þeirra hafa verið með áður.

Ný félög í deildarkeppninni frá 2012:

Knattspyrnufélagið Kóngarnir (Reykjavík)

Hestamannafélagið Fákur (Reykjavík)

Knattspyrnufélagið Elliði (Reykjavík)

Knattspyrnufélagið Mídas (Reykjavík)

Knattspyrnufélagið Vatnaliljur (Kópavogur)

UMF Skallagrímur (Borgarnes). Var síðast með 2011.

UMF Stokkseyrar. Var síðast með 2004, þá sem Freyr, í samstarfi við UMF Eyrarbakka.

Snæfell/Geislinn. Snæfell var með 2012. Geislinn var síðast með 1994 en hætti keppni um mitt sumar.

Kormákur/Hvöt. Kormákur var síðast með 1999. Hvöt tók þátt 2011 þá í samstarfi með Tindastóli.

Það er hægt að sjá nánir upplýsingar í frétt um málið inn á heimasíðu KSÍ eða með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×