Sport

Hafdís vann tvö gull á móti í Stokkhólmi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hafdís Sigurðardóttir.
Hafdís Sigurðardóttir. Mynd/Stefán
Hafdís Sigurðardóttir er í frábæru formi og hún sýndi það og sannaði með því að vinna tvö gull á frjálsíþróttamótinu Raka Spåret i Stokkhólmi. Hafdís bætti sinn besta tíma á árinu í báðum greinum, 400 metra hlaupi og langstökki. Þetta kemur fram á heimasíðu Frjálsíþróttasambands Íslands.

Fjórir íslenskir keppendur tóku þátt í mótinu í Stokkhólmi en Fjóla Signý Hannesdóttir, Trausti Stefánsson og Stefanía Hákonardóttir voru einnig með. Fjóla Signý, Trausti og Stefanía eru öll búsett í Svíþjóð og stunda æfingar þar af kappi. Allir íslensku keppendurnir á mótinu kepptu í 400m hlaupi.

Hafdís Sigurðardóttir vann 400 metra hlaupið á 55,89 sekúndum sem er besti tími hennar á ferlinum. Hún vann einnig langstökkið eftir spennandi keppni. Fyrir lokaumferðina var Hafdís í 2. sæti með 6,04 metra stökk og var aðeins einum sentímetra frá fyrsta sætinu.

Hafdís tryggði sér sigurinn í lokastökki sínu þegar hún stökk 6,11 metra sem er hennar besta stökk á þessu ári. Hafdís keppti einnig í 60m hlaupi þar sem hún komst í úrslit og endaði í 5. sæti

Fjóla Signý keppti í 60 metra og 400 metra hlaupi. Hún náði sér ekki á strik í 60 metrunum en vann sinn riðil í 400 metra hlaupinu og endaði í 3. sæti á tímanum 57,55 sekúndum sem er ekki langt frá hennar besta. Þetta var hennar fyrsta 400 metra hlaup á árinu líkt og hjá Trausta sem hljóp á 48,63 sekúndum og tryggði sér 2. sætið. Stefanía náði sér ekki á strik í 400 metra hlaupinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×