Fótbolti

Aron Jóhannsson á leiðinni í pólsku deildina?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Jóhannsson.
Aron Jóhannsson.
Pólska blaðið Glos Wielkopolski hefur heimildir fyrir því að pólska félagið Lech Poznan ætli að kaupa íslenska framherjann Aron Jóhannsson frá danska félaginu AGF. Aron hefur spilað vel með danska félaginu og er annar af markahæstu leikmönnum deildarinnar.

Aron Jóhannsson hefur skorað 14 mörk í 18 deildarleikjum með AGF á þessu tímabili en danska deildin er nú í vetrarfríi. Hann skoraði 7 mörk í 30 leikjum tímabilið á undan.

Glos Wielkopolski segir að Aron sé metinn á 450 þúsund evrur en það gera rúmlega 77 milljónir íslenskra króna. Blaðið segir að það séu talsverðar líkur á því að Aron verði tilkynntur sem nýr leikmaður Lech Poznan í þessari viku.

Lech Poznan er eitt frægasta félag Póllands en félagið vann pólska meistaratitilinn í sjötta sinn vorið 2010. Liðið er eins og er í 2. sæti deildarinnar fjórum stigum á eftir toppliði Legia Varsjá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×