Innlent

Bændur mótmæla afstöðu í ESB-viðræðum

Landbúnaður Bændasamtökin vilja að Ísland krefjist þess að tollar verði áfram lagðir á landbúnaðarvörur frá ESB í aðildarviðræðum. Aðrir hagsmunaaðilar telja það óraunhæft með öllu.Fréttablaðið/Stefán
Landbúnaður Bændasamtökin vilja að Ísland krefjist þess að tollar verði áfram lagðir á landbúnaðarvörur frá ESB í aðildarviðræðum. Aðrir hagsmunaaðilar telja það óraunhæft með öllu.Fréttablaðið/Stefán
Fulltrúar Bændasamtakanna gengu nýverið út af fundi starfshóps sem ætlað er að móta samningsafstöðu Íslands í landbúnaðarmálum í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið (ESB).

Ástæðan er sú að Sigurgeir Þorgeirsson, ráðuneytisstjóri í atvinnuvegaráðuneytinu og formaður starfshópsins, lýsti því yfir á fundinum að í samningsafstöðu Íslands yrði ekki krafist áframhaldandi tollverndar fyrir landbúnaðarvörur frá ríkjum ESB.

Bændasamtökin hafa áður kynnt svokallaðar varnarlínur sínar í tengslum við viðræðurnar, en ein þeirra er að áframhaldandi tollvernd verði tryggð.

Frá þessu var greint á vefsíðu Neytendasamtakanna sem eiga sömuleiðis fulltrúa í starfshópnum. Gagnrýna samtökin fulltrúa bænda fyrir gjörninginn og benda á að Bændasamtökin verði að gera sér grein fyrir því að þau séu ekki einráð þegar komi að samningsafstöðu Íslands í landbúnaðarmálum. Þannig verði einnig að gæta að hagsmunum neytenda, sem og annarra hagsmunaaðila.

Þá segja Neytendasamtökin alveg ljóst að krafa um áframhaldandi tollvernd landbúnaðarvara sé með öllu óraunhæf.

Hins vegar sé líklega hægt að koma til móts við sérstakar aðstæður íslensks landbúnaðar á annan hátt, svo sem með beinum stuðningi úr landbúnaðarsjóði ESB og ríkissjóði Íslands.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×