Tíska og hönnun

Á fimmtíu pör af skóm

Sölvi Tryggvason segir íslenska karlmenn vanmeta hversu miklu máli fallegir skór skipta fyrir heildarútlitið en skósafn Sölva telur fimmtíu pör. 
Fréttablaðið/gva
Sölvi Tryggvason segir íslenska karlmenn vanmeta hversu miklu máli fallegir skór skipta fyrir heildarútlitið en skósafn Sölva telur fimmtíu pör. Fréttablaðið/gva
„Ég viðurkenni að ég er forfallinn skófíkill en það er bara fallegt. Fólk hefur verri fíknir en þetta,“ segir rithöfundurinn og fjölmiðlamaðurinn Sölvi Tryggvason.

Sölvi er stoltur skósafnari og á yfir 50 pör af skóm sem hann hugsar um af alúð. Ekki eru nema tvö ár síðan áhugi Sölva á skóbúnaði kviknaði, en hann hefur verið iðinn við að bæta í safnið. Sölvi er einmitt nýkominn heim frá Marokkó þar sem hann fjárfesti í tveimur pörum. „Það var ekki vegna þess að mig vantaði skó. Annað parið er ljósbrún leðurstígvél með munstri á tánni sem mig hefur dreymt um að eignast lengi. Þau passa bæði við jakkaföt og gallabuxur en það er mikill kostur,“ segir Sölvi sem kennir starfi sínu í sjónvarpi um skódelluna.

„Þá þurfti ég að byrja að hugsa út í hvernig ég klæddist og allt í einu fattaði ég hvað skór skipta miklu máli. Það er afar vont að vera vel klæddur en í ljótum skóm. Það bara gengur ekki,“ segir Sölvi en bætir við að einnig séu ákveðin fræði á bak við það að para flotta skó saman við fatnað.

Sölvi vandar sig í skókaupum og segir hvert skópar bæta fataskápinn. Hann segir íslenska karlmenn hugsa of lítið um klæðaburð, en hefur fundið fyrir auknum áhuga hins kynsins eftir að hann fór að spá í tísku og safna skóm. „Karlarnir fatta bara ekki hversu miklu máli þetta skiptir. Ég var reyndar í bænum um helgina og þá var ég þrisvar sinnum spurður hvort ég væri hommi en ég tek því sem miklu hrósi fyrir minn fatastíl.“

Sölvi er með mörg járn í eldinum þessa dagana. Hann flakkar á milli framhalds- og grunnskóla með fyrirlestra um forvarnir og kemur að handritagerð fyrir þættina Sönn íslensk sakamál. Sölvi ætlar svo að henda sér í jólabókaflóðið í byrjun nóvember með ævisögu Jóns Páls Sigmarssonar.

alfrun@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×