Lífið

Óvenju mörg eintök pöntuð af Rowling

J.K. Rowling
J.K. Rowling
„Við finnum fyrir mikilli eftirvæntingu fyrir þessari bók," segir Ragnar Veigar Guðmundsson, vörustjóri erlendra bóka í Eymundsson, um nýjustu bók metsöluhöfundarins JK Rowling, The Casual Vacancy, sem kemur út í Bretlandi í dag.

The Casual Vacancy er fyrsta skáldsaga JK Rowling síðan seinasta bók Harry Potter-seríunnar kom út árið 2007. Mikill spenningur er fyrir bókinni í Bretlandi en yfir milljón eintök hafa þegar selst þar í forsölu.

Búist er við góðum viðtökum hér á landi og fullyrðir Ragnar að pantað hafi verið óvenjulega mikið magn af bókinni. „Við pöntuðum fleiri hundruð eintök sem er óeðlilega mikið. Biðlistar eru þegar farnir að myndast í búðunum og spennan er greinilega mikil."

Mikil leynd hefur verið yfir The Casual Vacancy og til að mynda fékk blaðamaður The Guardian að lesa bókina í læstu herbergi með öryggisverði yfir sér áður en hann tók viðtal við Rowling. Í viðtalinu kemur fram að Rowling hafi litlar áhyggjur af sölutölum, en er í mun að þessi fyrsta skáldsaga hennar fyrir fullorðna falli í kramið hjá lesendum.

Ragnar á von á því að bókin verði komin í verslanir um eða eftir helgi, en hún er svo væntanleg í íslenskri þýðingu í nóvember.

The Casual Vacancy verður hins vegar fáanleg á rafbókarformi á vefsíðunni Eymundsson.is strax í dag. - áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×