Lífið

Á fimmta þúsund sjá Baggalút

vinsælir Grallararnir í Baggalúti sjá um að koma á fimmta þúsund Íslendinga í jólaskap.
vinsælir Grallararnir í Baggalúti sjá um að koma á fimmta þúsund Íslendinga í jólaskap.
„Þetta gerist miklu hraðar núna," segir Guðmundur Pálsson þegar borin er saman miðasalan á jólatónleika Baggalúts í fyrra og í ár.

Uppselt er á þrenna tónleika grallaranna í Háskólabíói fyrir jólin, auk þess sem miðasala gengur mjög vel á tónleika númer fjögur og á tónleika í Hofi á Akureyri. „Þetta er mjög skemmtilegt. Það kemur alltaf á óvart þegar einhver nennir að hlusta á mann."

Tónleikar Baggalúts hafa fest sig í sessi í jólatónleikaflórunni undanfarin ár. Síðasta ár spilaði hljómsveitin einnig á fernum tónleikum í Háskólabíói en svo virðist sem fólk sé æstara í að tryggja sér miða fyrir þessi jól.

Um 3.600 manns verða því gestir á tónleikum Baggalúts í Háskólabíói. Með tónleikunum á Hofi verða áhorfendurnir á fimmta þúsund. Spurður hvort þeir félagar græði ekki vel á herlegheitunum segir Guðmundur: „Við erum með stóra hljómsveit og þetta er stórt hús. Þarna eru stór hljóðkerfi og það eru margir sem koma að þessu sem fá borgað. En auðvitað fáum við sjálfir sæmilega borgað fyrir þetta."

Jólatónleikar Björgvins Halldórssonar og Frostrósa hafa hingað til borið af í vinsældum fyrir jólin. Spurður hvort Baggalútur sé að taka fram úr þeim hlær Guðmundur: „Nei, ég er ekki viss um að þetta sé sami hópurinn. Mér skilst að það séu frábærir tónleikar hjá þeim og mikil stemning. Það eru margir sem komast í jólafíling þar en líka margir sem komast í jólafíling hjá okkur. Við komumst að minnsta kosti í jólafíling." - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×