Jón Gnarr skartar óvenju myndarlegu alskeggi þessa dagana, enda hefur hann safnað því síðastliðinn mánuð. Ástæðan er sú að borgarstjórinn hyggst sækja sérstaka búningasýningu á Comic Con, nýjustu mynd leikstjórans Morgans Spurlock sem fjallar um fræga nördaráðstefnu í San Diego, á RIFF-hátíðinni næstkomandi föstudag, í gervi Obi-Wan Kenobi úr Star Wars.
Jón lætur ekki skeggið nægja til að líkjast hinum hugdjarfa Jedi-meistara sem mest heldur verður hann líka í einkennandi brúnum kufli með hettu og geislasverð. Besti búningurinn verður verðlaunaður að sýningu lokinni og hlýtur fyrrum Fóstbróðirinn og Stjörnustríðsaðdáandinn Jón að teljast nokkuð sigurstranglegur.-áp, -kg
Obi-Wan Gnarr
