Par sem ákært er fyrir að skipuleggja innflutning á tæpu kílói af kókaíni til landsins í þremur hlutum játaði hluta sakarinnar við þingfestingu ákærunnar í Héraðsdómi Reykjaness í gær.
Miklir fagnaðarfundir urðu með parinu þegar það náði saman í dómsalnum og kysstist það innilega og ítrekað á meðan beðið var eftir dómaranum. Konan situr í varðhaldi í Kvennafangelsinu í Kópavogi en manninum var nýverið sleppt úr varðhaldi og hann úrskurðaður í farbann.
Konan, Giovanna Soffía Gabríella Spanó, játaði að hafa fengið móður sína til að flytja hingað 570 grömm af kókaíni sem falið var í ferðatösku. Móðirin er ekki ákærð í málinu. Konan neitar aftur á móti að bera ábyrgð á innflutningi á 350 grömmum af kókaíni frá Spáni og tilraun til að smygla 140 grömmum frá Danmörku.
Maðurinn, Magnús Björn Haraldsson, játar sök í síðastnefnda liðnum en neitar hinum tveimur. Burðardýrin í Spánarmálinu mættu ekki í héraðsdóm í gær.
Steinar Aubertsson, sem var eftirlýstur vegna málsins og var handtekinn í Hollandi fyrir tveimur vikum, er væntanlegur til landsins á næstunni. Búist er við að þá verði gefin út framhaldsákæra á hendur honum og honum þannig bætt inn í málið. - sh
