Lífið

Mömmumatur, sultur og sparnaðarráð

Ráð undir rifi hverju Eygló leggur mikið upp úr því að geta svarað öllum spurningum sem berast og leitar sér oft svara hafi hún þau ekki á reiðum höndum.
Fréttablaðið/gVA
Ráð undir rifi hverju Eygló leggur mikið upp úr því að geta svarað öllum spurningum sem berast og leitar sér oft svara hafi hún þau ekki á reiðum höndum. Fréttablaðið/gVA
Eygló Guðjónsdóttir á svo sannarlega ráð undir rifi hverju en hún er forstöðumaður Leiðbeiningastöðvar heimilanna og aðstoðar fólk með ýmis vandamál í gegnum síma eða Internetið. „Það er mikið um karla sem hringja inn og biðja um ráð til að elda mat eins og mamma gerir hann," segir Eygló hlæjandi.

Leiðbeiningastöð heimilanna var sett á fót í október 1963 og fagnar því 50 ára afmæli á næsta ári. „Lengst af hringdi fólk alltaf inn en fyrir fimm árum tókum við heimasíðuna í gagnið og nú getur fólk fundið svör við flestum spurningum þar," segir Eygló. Hún segir þó vera töluvert af fólki sem enn hringi inn og að álagið sé árstíðabundið. „Það er mikið að gera þegar fólk stendur í jólabakstrinum, á sláturtíð og á þessum árstíma þegar verið er að spá í sulturnar og saftin," segir hún og bætir við að fyrirspurnir um veisluhöld og upplýsingar um erlendar gæðakannanir á heimilistækjum séu líka algengar.

Aðspurð hvort hún sé með svör við öllum vandamálum hlær Eygló og segir það ekki vera svo gott en að það sé þó mjög sjaldan sem fólk fái ekki úrlausn sinna mála, enda leiti hún svara hafi hún þau ekki á reiðum höndum. Hún segir ungar konur vera þær sem hafi mest samband en að það hafi þó aukist mjög að karlar leiti aðstoðar. „Fyrst eftir efnahagsófarirnar hringdi mikið af yngra fólki og var að velta fyrir sér sparnaðarráðum. Það hefur nú aðeins gengið til baka núna," segir hún og bætir við að aukning hafi orðið á að miðaldra karlmenn leiti aðstoðar.

„Ég fékk skondið símtal fyrir nokkru þar sem maður hringdi og bað um ráðleggingar um hvort hann ætti að hefja sambúð með kærustunni sinni. Honum þótti lítið til þessarar leiðbeiningastöðvar koma þegar ég gat ekki hjálpað honum með það vandamál," segir hún og hlær.

Leiðbeiningastöðin heldur úti heimasíðunni Leidbeiningastod.is auk þess sem hún hefur gefið út ýmiss konar fræðsluefni í gegnum árin sem hægt er að kaupa gegn vægu gjaldi.

Leiðbeiningastöðin er ekki eini vettvangurinn sem miðlar húsráðum því samskiptasíðan Facebook fer ekki varhluta af þeim, frekar en öðru, og síðan Húsráð og annar fróðleikur hefur verið stofnuð þar. Þar geta allir Facebook-notendur skrifað sín vandamál og aðrir notendur komið með ráðleggingar.

tinnaros@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×