Lífið

Bauðst starf eftir danskeppni

Á leið út Lindu Ósk Valdimarsdóttur bauðst starf yfirkennara við Dansakademíuna í Malmö eftir frammistöðu sína í Rampljuset.fréttablaðið/gva
Á leið út Lindu Ósk Valdimarsdóttur bauðst starf yfirkennara við Dansakademíuna í Malmö eftir frammistöðu sína í Rampljuset.fréttablaðið/gva
Linda Ósk Valdimarsdóttir dansari kom fram í hæfileikakeppninni Rampljuset sem sýnd var í sænska ríkissjónvarpinu í maí. Þættirnir njóta mikilla vinsælda og í kjölfar þeirra var Lindu Ósk boðið starf yfirkennara hjá Dansakademíunni í Malmö.

„Þetta er enginn smá heiður fyrir mig, aðeins tvítuga stelpuna," segir Linda Ósk og bætir við: „Ég hef gengið frá öllum samningum við skólann og flyt út á morgun [í gær]. Fyrsta verkefnið mitt er strax á sunnudag en þá verð ég einn af þremur dómurum í áheyrnarprufum fyrir sýningarhóp skólans."

Að sögn Lindu bar flutningana skjótt að og hefur hún til að mynda aldrei hitt skólastjóra skólans. Hún kveðst þó spennt fyrir vinnunni og segir þetta ævintýri líkast. „Ég er búin að selja allt dótið mitt og fer út með aðeins eina 20 kílóa ferðatösku. Það er engin eftirsjá eftir dótinu mínu, mér finnst þetta allt bara ótrúlega spennandi og ég hlakka til að upplifa ný ævintýri, nýtt land og nýtt tungumál."

Linda Ósk gerði samning til sex mánaða við skólann en telur líklegt að hún dvelji í það minnsta í tvö ár í Svíþjóð. Hún segir jafnframt að óalgengt sé að yfirkennarar séu ráðnir á þennan hátt. „Bæði hefur skólastjórinn ekki hitt mig og það er líka óalgengt að yfirkennarar séu svona ungir."

Linda Ósk er eigandi dansskólans Rebel Dance Studio og dansar að auki með Rebel-dansflokknum. Hún segir dansskólann vera í góðum höndum í hennar fjarveru því meðeigandi hennar, Helga Ásta Ólafsdóttir, tekur við rekstrinum.

- sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×