Íslenski boltinn

Góður möguleiki í báðum leikjum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Það fer vel á með landsliðsþjálfaranum Lars Lagerbäck og aðstoðarmannum Heimi Hallgrímssyni.
Það fer vel á með landsliðsþjálfaranum Lars Lagerbäck og aðstoðarmannum Heimi Hallgrímssyni. Fréttablaðið/Vilhelm
Lars Lagerbäck, þjálfari karlalandsliðs Íslands, tilkynnti í gær 22 manna hóp fyrir landsleikina gegn Noregi og Kýpur í undankeppni heimsmeistaramótsins í Brasilíu 2014. Fyrri leikurinn verður á Laugardalsvelli föstudagskvöldið 7. september og sá síðari ytra gegn Kýpur 11. september. Um fyrstu leiki liðsins í keppninni er að ræða.

„Við eigum að minnsta kosti helmingsmöguleika í heimaleiknum gegn Noregi. Við erum byrjaðir að vinna og sjö þúsund manns mættu á leikinn gegn Færeyjum. Ég heyrði hjá leikmönnunum hve ánægðir þeir voru með að spila í þessu andrúmslofti," sagði Lagerbäck á blaðamannafundi í gær en Svíanum líst vel á leikina tvo.

„Við eigum góðan möguleika á þremur stigum bæði gegn Noregi og Kýpur. Við þurfum hins vegar að undirbúa okkur afar vel og leika vel. Frammistaðan þarf að vera 100 prósent í báðum leikjum."

Íslenska liðið lagði Færeyjar í æfingaleik á Laugardalsvelli á dögunum 2-0 og sýndi Svíinn blaðamönnum myndbrot úr leiknum. Þá benti hann á það sem vel gekk og það sem mætti bæta. Gæði framherjans Kolbeins Sigþórssonar voru öllum ljós og tíðindi af axlarmeiðslum kappans slæmar fréttir fyrir landsliðið.

„Væri leikurinn á morgun gæti hann ekki spilað," sagði Lagerbäck sem reiknar með nýjum tíðindum af meiðslum Kolbeins fljótlega. Hann viðurkennir að liðið sé ekki samt án Kolbeins sem hefur skorað átta mörk í ellefu A-landsleikjum.

„Tölfræði hans talar sínu máli. Kolbeinn er stórkostlegur markaskorari og frábær leikmaður fyrir liðið. Þetta er sambærilegt og ef Svíar væru án Zlatans. Ef hann er meiddur verða aðrir að fylla í skarðið og við verðum líklega að breyta leikskipulaginu spili hann ekki."

Ísland tapaði báðum leikjum sínum gegn Norðmönnum í síðustu undankeppni með minnsta mun. Líkt og svo oft áður spilaði Ísland ágætan leik en uppskeran var engin. Lagerbäck hefur skoðað leikina.

„Í leiknum heima tel ég Ísland hafa verið mun betri aðilann svo ef við töpum á þann hátt verð ég mjög vonsvikinn. Liðið hefur spilað vel, miðað við þá leiki sem ég hef séð í síðustu undankeppni, en einstaklingsmistök og slæm nýting á færum orðið liðinu að falli."

Eiður Smári utan hópsFátt kom á óvart í leikmannavali Lagerbäcks. Ekkert pláss er þó fyrir markahæsta leikmann landsliðsins frá upphafi, Eið Smára Guðjohnsen. Eiður Smári kom inn á sem varamaður í leiknum gegn Færeyjum en hann er enn án félags.

„Þrátt fyrir að hann sé frábær leikmaður og gæti hjálpað okkur hluta úr leiknum tel ég röng skilaboð að velja leikmann sem æfir ekki með liði. Við þurfum leikmenn sem geta spilað 90 mínútur enda veistu aldrei hvað gerist í leikjum," sagði Lagerbäck, sem valdi Grétar Rafn Steinsson sem nýverið samdi við tyrkneska félagið Kayserispor.

„Leikform Grétars er spurningarmerki en ég myndi halda að möguleikar hans og Birkis Más um byrjunarliðssæti í stöðu hægri bakvarðar séu jafnmiklir."

Birkir og Bjarni bestu kostirnirFáir leikmenn hafa hlotið meiri gagnrýni með íslenska landsliðinu en bakverðirnir Birkir Már Sævarsson og Bjarni Ólafur Eiríksson. Hvort sem gagnrýnin hefur verið réttmæt eða ekki vilja margir meina að landsliðið standi hvað verst að vígi í bakvarðarstöðunum.

„Að mínu mati eru Birkir Már og Bjarni Ólafur bestu bakverðirnir sem við eigum," segir Lagerbäck sem telur íslenska liðið ekki sérstaklega veikt í umtöluðum stöðum. „Ég hef séð eldri leiki Bjarna Ólafs með landsliðinu og miðað við leiki hans með okkur tel ég hann vera góðan bakvörð. Hann er stór og sterkur, með góðan vinstri fót og fínan leikskilning. Hann nýtist okkur sóknarlega líka svo ég tel hann ekki eiga gagnrýni skilið," sagði Lagerbäck sem hafði heyrt af gagnrýninni í garð Bjarna Ólafs.

„Birkir Már er mjög áhugaverður leikmaður. Hann er líklega fljótasti leikmaðurinn í hópnum og að vera með hraða varnarmenn er mjög mikill styrkleiki. Ég tel þá báða mjög góða leikmenn," sagði Lagerbäck.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×