Lífið

Fella klæði fyrir peninga

Á Sviði Magic Mike segir frá hópi manna sem sjá fyrir sér sem fatafellur. Myndin var frumsýnd í gær og hefur hlotið góða dóma.
Á Sviði Magic Mike segir frá hópi manna sem sjá fyrir sér sem fatafellur. Myndin var frumsýnd í gær og hefur hlotið góða dóma.
Kvikmyndin Magic Mike var frumsýnd í Sambíóunum í gærkvöldi. Myndin skartar Channing Tatum, Alex Pettyfer og Matthew McConaughey í aðalhlutverkum.

Magic Mike segir frá vandræðapésanum Adam sem kynnist fatafellunni Mike Lane og leiðist Adam í kjölfarið út í starfið. Mike tekur að sér að kenna Adam dansspor, sviðsframkomu og allt sem viðkemur skemmtanalífinu. Adam tekur sér sviðsnafnið The Kid og hefur feril sinn sem fatafella á skemmtistaðnum Xquisite, þetta gerir hann í óþökk systur sinnar sem hefur af honum miklar áhyggjur. Starfið býr þó yfir skuggahliðum og þeim fær Adam fljótt að kynnast er hann sekkur dýpra og dýpra í heim fíkniefna og skyndikynna. Á hinn bóginn hyggst Mike segja skilið við bransann og hefja nýtt og betra líf.

Með hlutverk fatafellanna fara Channing Tatum, Matthew McConaughey, Alex Pettyfer, Matt Bomer og Joe Manganiello. Með önnur hlutverk fara Cody Horn og Olivia Munn.

Leikstjóri myndarinnar er enginn annar en Steven Soderbergh sem hefur leikstýrt myndum á borð við Out of Sight, Erin Brockovich, Traffic og Ocean's Eleven. Soderbergh er einnig framleiðandi myndarinnar ásamt Tatum.

Myndin hefur fengið glimrandi dóma og á vefsíðunni Rottentomatoes.com hlýtur hún 77 prósent ferskleikastig frá kvikmyndagagnrýnendum sem hrósa danshöfundinum Allison Faulk fyrir vel unnin störf og leikstjóranum sem tekst vel með að gera áhugaverða kvikmynd um hóp fatafella. Channing Tatum kemur að auki á óvart í hlutverki sínu og er sagður sýna meiri dýpt í leik sínum en oft áður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×