Lífið

KK fer með Andra til Kanada

Ferðalangur KK ferðast með Andra á slóðir Vestur-Íslendinga í lok júlí en fyrst siglir hann á bátnum sínum, Æðruleysi, til Viðeyjar og flytur nokkrar perlur.
fréttablaðið/Valli
Ferðalangur KK ferðast með Andra á slóðir Vestur-Íslendinga í lok júlí en fyrst siglir hann á bátnum sínum, Æðruleysi, til Viðeyjar og flytur nokkrar perlur. fréttablaðið/Valli
„Við Andri verðum saman á flandri. Ég mun láta lítið fyrir mér fara en sjást öðru hvoru með gítarinn eða munnhörpuna," segir Kristján Kristjánsson, betur þekktur sem tónlistarmaðurinn KK. Hann heldur á slóðir Vestur-Íslendinga ásamt Andra Frey Viðarssyni í nýrri þáttaröð af Andra á flandri, sem verður tekin upp í lok mánaðarins.

„Ég er Vestur-Íslendingur, í fullri alvöru," segir Kristján sem fer á æskuslóðir sínar í upphafi ferðalagsins en hann er fæddur í Minneapolis í Bandaríkjunum. „Þaðan keyrum við krókaleið upp til Winnipeg og endum á Gimli-hátíðinni. Hugmyndin er að hafa mig sem eins konar gjöf til Vestur-Íslendinga frá Andra en ég spila á hátíðinni," segir hann.

Félagarnir fara af landi brott 24. júlí og keyra um svæðið á pallbíl í tvær vikur. KK segir takmark ferðarinnar vera að kanna hvort Andri haldi lagi. „Þá semjum við kannski lag saman," segir hann og bætir við að allt geti gerst í slíkri ævintýraferð.

KK heldur síðustu tónleika sína fyrir Ameríkuförina í dag í Viðeyjarstofu klukkan átta. Þar mun hann flytja lagasmíðar sem hafa ekki hljómað á tónleikum hans að undanförnu.

-hþt






Fleiri fréttir

Sjá meira


×