Innlent

Bændum bannað að gera ógerilsneyddan ost

baldur helgi Benjamínsson
baldur helgi Benjamínsson
Kúabændur furða sig á nýrri reglugerð sem heimilar ferðalöngum að flytja til landsins takmarkað magn af ógerilsneyddum ostum. Samkvæmt reglugerðum er íslenskum kúabændum óheimilt að framleiða ógerilsneyddar mjólkurvörur.

„Þetta er hið furðulegasta mál þar sem okkur er ekki gefið tækifæri til að framleiða þessa vöru líka. Það er verið að leyfa innflutning á vöru sem okkur er bannað að framleiða en það er augljós mismunun," segir Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda.

Fréttablaðið greindi á þriðjudag frá nýju reglugerðinni sem tók gildi í maí. Breytingin er ein af afleiðingum upptöku Íslands á matvælalöggjöf Evrópusambandsins sem Íslandi bar að taka upp samkvæmt EES-samningnum. Löggjöfin var samþykkt á Alþingi í nóvember í fyrra en umræddar breytingar urðu með nýrri reglugerð í maí.

Samkvæmt reglugerðinni varð sú breyting önnur að ferðalöngum er nú leyfilegt að taka með sér lítið magn af hráu kjöti til Íslands sé kjötið frosið og prófað fyrir salmonellu. Þó þarf að afla leyfis frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu áður.

Baldur Helgi segir þessa breytingu hafa lítil áhrif á kúabændur enda hafi annars konar innflutningur á hráu kjöti verið leyfður um árabil. „Það að leyfa nú ferðalöngum að flytja inn lítið magn er því kannski ekki mikil breyting og við höfum enga sérstaka skoðun á því," segir Baldur.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×