Innlent

Ruslið hleðst upp við Frakkastíg

Óreiða Verktakinn hefur sett grindverk fyrir lóðina svo erfitt hefur verið fyrir sorphreinsunarfólk að athafna sig á svæðinu. Haugur af svörtum ruslapokum ber þess skýr merki. 
fréttablaðið/pjetur
Óreiða Verktakinn hefur sett grindverk fyrir lóðina svo erfitt hefur verið fyrir sorphreinsunarfólk að athafna sig á svæðinu. Haugur af svörtum ruslapokum ber þess skýr merki. fréttablaðið/pjetur
Það er ófögur sjón sem blasir við vegfarendum sem ganga niður Frakkastíginn neðan við Hverfisgötu í Reykjavík. Þar er autt svæði sem ber merki mikils hirðuleysis.

Sami aðilinn á þarna nokkrar samliggjandi lóðir og er skikinn í hálfgerði biðstöðu. Ráðast á í miklar framkvæmdir og uppbyggingu á reitnum á næstunni.

„Þetta er í leigu hjá samtökunum Veraldarvinum og þetta fólk er búið að lofa okkur í tvo mánuði að taka dótið sitt, en svíkur það alveg jafnóðum," segir Pétur Björnsson, stjórnarformaður Hverfils, sem er skráður eigandi að lóðinni.

„Hins vegar er þetta okkar lóð og þetta verður ekki svona til langframa," segir Pétur.

Forsvarsmaður Veraldarvina, Þórarinn Ívarsson, segir ábyrgðina liggja hjá verktakanum.

„Við höfum þrifið óhemju mikið þarna í kring í gegnum tíðina, en þarna er fullt af drasli sem tengist yfirvofandi framkvæmdum og það er ekki á okkar ábyrgð," segir Þórarinn.

„Við höfum verið í miklum hreinsunarstörfum hérna við Hverfisgötuna á undanförnum árum og getum alveg hreinsað þetta líka," segir Þórarinn.

Hann ætlar að senda menn í hreinsunarleiðangur á svæðið í dag.- ktg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×