Skoðun

Brúkum bekkina

Unnur Pétursdóttir skrifar
Á undanförnum árum hefur Félag íslenskra sjúkraþjálfara (FÍSÞ) staðið fyrir samfélagsverkefnum til að hvetja almenning til aukinnar hreyfingar. Eitt þeirra er verkefnið „Að brúka bekki", framkvæmt í samvinnu við félög eldri borgara og sveitarfélög.

Hugmyndin gengur út á að kortleggja stuttar gönguleiðir, sem henta þeim sem lakir eru til gangs, gjarnan í námunda við fjölbýlishús eldri borgara. Vissulega eru bekkir víða, en þessar leiðir eru þannig hannaðar að tryggt er að ekki séu meira en 200-300 m á milli bekkja, sem er forsenda þess að fjölmargir treysti sér til að ganga úti.

Sjúkraþjálfarar á Akureyri riðu á vaðið og vígðu fyrstu tvær leiðirnar árið 2010. Nú eru þar fjórar leiðir sem liggja úr frá fjölbýlishúsum eldri borgara við Lindarsíðu, Víðilund, Hlíð og Mýrarveg.

Verkefnið hefur hlotið góðan hljómgrunn víðar. Á Húsavík eru tvær leiðir út frá dvalarheimilinu Hvammi ásamt einni leið í suðurhverfi bæjarins og á Kópaskeri er gönguleið við sjávarsíðuna. Í Garðabæ liggja tvær leiðir frá Sjálandi og upp að verslunarmiðstöðinni Litlatúni. Gönguleiðir af þessu tagi eru einnig komnar í Hamraborg, Gullsmára og við Boðaþing í Kópavogi. Í Mosfellsbæ er verið að setja upp tvær leiðir út frá miðbæjarkjarnanum, auk þess sem verkefnið er í undirbúningi í Hafnarfirði og á Raufarhöfn.

Kort hafa verið gerð með staðsetningu bekkjanna og má nálgast þau á vef FÍSÞ, www.physio.is . Yngri aðstandendur eru hvattir til að aðstoða hina eldri við að finna kortin á vefsíðunni, prenta út og jafnvel ganga með þeim fyrsta hringinn.

Sjúkraþjálfarar vonast til þess að íbúar í nágrenni þessara leiða notfæri sér bekkina óspart og láti takmarkaða göngugetu ekki hindra sig í að drífa sig út í sumarið. Það er stutt í næsta bekk!




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×