Íslenski boltinn

Saman með 16 mörk

Haukar komust í sögubækurnar þegar að liðið vann sannkallaðan stórsigur á Snæfelli í 2. umferð bikarkeppni KSÍ í fyrrakvöld, 31-0. Tveir leikmenn skoruðu meira en helming allra marka í leiknum.

Viktor Smári Segatta er einn fárra leikmanna sem hefur skorað tíu mörk í einum og sama leiknum og Enok Eiðsson mátti sætta sig við að vera næstmarkahæstur þrátt fyrir að hafa skorað sex mörk.

„Þetta þróaðist bara í eina átt – að markinu þeirra," sagði Enok léttur í bragði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær. „Það er svekkjandi að sex mörk dugðu ekki til að vera markahæstur en Viktor var grimmari við markið."

Sjálfur vildi Viktor ekki meina að Haukarnir hafi farið illa með 3. deildarlið Snæfells. „Það tel ég ekki. Við kláruðum bara þetta almennilega," sagði hann.

Fram kom á fréttavef Morgunblaðsins í gær að Haukar hafi jafnað markamet Smástundar frá Vestmannaeyjum sem vann Skautafélag Reykjavíkur í gömlu 4. deildinni árið 1996, 31-1. Leiða má þó líkur að því að sigur Hauka sé einn sá stærsti frá upphafi í leik á vegum KSÍ.

Öllum leikjum nema einum er lokið í 2. umferð Bikarkeppni KSÍ en dregið verður í 32-liða úrslit keppninnar í dag. Liðin úr Pepsi-deild karla hefja þá þáttöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×