Skoðun

Fjölmiðill í almannaþágu

Katrín Jakobsdóttir skrifar
Fyrir Alþingi liggur frumvarp mitt til laga um Ríkisútvarpið. Með því er mörkuð sú stefna að Ríkisútvarpið leggi megináherslu á það hlutverk sitt að veita fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Af því leiðir að samfélagslegt hlutverk þess er í forgrunni en viðskiptasjónarmið verða víkjandi. Er þetta í samræmi við það grundvallarsjónarmið sem ríkt hefur í starfsemi ríkisrekinna fjölmiðla annars staðar á Norðurlöndum og víðar, t.d. í Bretlandi, og hefur skapað þeim sérstöðu og traust umfram aðra fjölmiðla.

Með frumvarpinu er tekin sú afstaða að Ríkisútvarpið sé ein af helstu stoðum lýðræðissamfélagsins. Því hlutverki sinnir það með því að veita landsmönnum upplýsingar sem þeir geta treyst að þjóni almannahagsmunum en ekki sérstökum sjónarmiðum eða hagsmunahópum, stjórnmálasamtökum eða einstaklingum. Með því móti gerir Ríkisútvarpið fólki kleift að móta skoðanir sínar og draga ályktanir út frá réttum upplýsingum, að því marki sem það er mögulegt.

Til að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði dagskrárgerðar Ríkisútvarpsins gagnvart viðskiptalegum sjónarmiðum gerir frumvarpið ráð fyrir að stofnað verði sérstakt dótturfélag um þá starfsemi Ríkisútvarpsins sem fellur utan fjölmiðlaþjónustu þess í almannaþágu, m.a. sölu auglýsingarýmis. Er einnig kveðið á um að það birti verðskrá vegna sölu á auglýsingarými í dagskrá. Þá verða settar takmarkanir á lengd auglýsingatíma og auglýsingar í miðjum dagskrárliðum gerðar óheimilar. Með þessu er einnig komið til móts við þau sjónarmið að draga eigi úr vægi Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði.

Með frumvarpinu er menningarhlutverk Ríkisútvarpsins skilgreint nánar en verið hefur og út frá því að Ríkisútvarpið sé ein helsta menningarstofnun landsins. Í því felst að Ríkisútvarpið býður fjölbreytt og vandað menningar- og afþreyingarefni og fjallar um ólík svið íþrótta, lista og menningarlífs á Íslandi og erlendis, auk þess að vera vettvangur umræðna og skoðanaskipta um íslenska menningu og samfélag. Í því samhengi er mikilvægt að hugað sé sérstaklega að þörfum barna og ungmenna. Það er einnig hlutverk Ríkisútvarpsins að leggja rækt við íslenska tungu og kynna sögu þjóðarinnar, menningararfleifð og náttúru. Þá er gert ráð fyrir að Ríkisútvarpið verði virkur þátttakandi í íslenskri kvikmyndagerð, meðal annars með kaupum frá sjálfstæðum framleiðendum.

Fleira mætti nefna en það er von mín að ný lög um Ríkisútvarpið styrki enn frekar grunn þess og hlutverk sem fjölmiðill í almannaþágu.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×