Skoðun

Aukum hagvöxt

Svana Helen Björnsdóttir skrifar
Öll viljum við að hagvöxtur aukist á Íslandi. Aðeins með auknum þjóðartekjum og góðum hagvexti munum við sem þjóð ná að bæta lífskjör almennings hér á landi.

Ýmsir hafa réttilega bent á að stórframkvæmdir og fjárfestingar erlendra aðila séu nauðsynlegar til að auka hagvöxtinn. Um leið varpa menn gjarnan ábyrgðinni alfarið á stjórnvöld og bíða eftir að þau eða aðrir leysi vandann í stað þess að líta sér nær og spyrja: „Hvað get ég gert til að auka hagvöxt á Íslandi?“

Vilji menn auka hagvöxt er best að líta fyrst til þeirrar verðmætasköpunar sem nú þegar á sér stað í landinu. Iðnaðurinn aflar um helmings útflutningstekna landsins og skapar að jafnaði tæplega fjórðung af landsframleiðslu íslensku þjóðarinnar. Í iðnaði starfar ennfremur um fimmtungur þeirra sem eru starfandi á íslenskum vinnumarkaði. Fyrirtækin í Samtökum iðnaðarins starfa í ýmsum atvinnugreinum, s.s. í byggingariðnaði, tækni- og hugverkagreinum, matvælaiðnaði, stóriðju, framleiðslu og fjölbreyttum hönnunar- og þjónustugreinum.

Ef litið er til vaxtarmöguleika atvinnugreina, er ljóst að tækni- og hugverkaiðnaður er sú tegund iðnaðar sem á hvað mesta vaxtarmöguleika hér á landi. Það er m.a. sérhæfð matvæla- og efnavinnsla til útflutnings, heilbrigðisþjónusta, hönnun og sköpun ýmis konar auk verkfræði, m.a. á sviði orku- og umhverfismála. Það gefur auga leið að skynsamlegt er að byggja á því sem þegar er til staðar og góð reynsla er af. Það liggur einnig beint við að ætla að þeir aðilar sem gerst þekkja til í rekstri fyrirtækja landsins séu færir um að taka rekstur sinn skrefinu lengra, auka nýsköpun og um leið verðmætasköpun með útflutning að markmiði. Betri sérfræðinga en þá sem nú starfa í fyrirtækjum landsins finnum við vart hér á landi. Það er miklu nærtækara að fela hæfu rekstrarfólki slík verkefni en ætlast til að eingöngu stjórnvöld og erlendar fjárfestingar skrifaðar í skýin leysi hagvaxtarvandann.

Er ekki kominn tími til þess að huga að nýsköpun og verðmætasköpun sem nær út fyrir hefðbundnar starfsgreinar og um leið þvert yfir þær? Sílóin sem við höfum komið okkur upp og múrarnir sem við höfum byggt til varnar atvinnugreinum landsins eru e.t.v. hindrun í þeirri nýju sköpun sem hér þarf að eiga sér stað.

Í Samtökum iðnaðarins eru menn reiðubúnir til að starfa saman að settu marki. Þar bíða menn ekki eftir stjórnvöldum, heldur láta verkin tala.




Skoðun

Sjá meira


×