Söfnun UNICEF fyrir vannærð börn á Sahel-svæðinu í Afríku hefur gengið vonum framar þar sem tólf milljónir króna hafa safnast á einni viku.
„Við erum afar þakklát fyrir stuðninginn og það mikla traust sem UNICEF er sýnt," segir Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, í tilkynningu.
„UNICEF er á staðnum í öllum átta ríkjunum á Sahel-svæðinu þar sem þurrkar og uppskerubrestur hafa sett börn í lífshættu. UNICEF hefur þekkingu, reynslu og getu til að bjarga lífi vannærða barna og reynslan sýnir að 95% vannærðra barna sem fá meðhöndlun á þessu svæði lifa af. Flest börnin ná sér á einungis fáeinum vikum," segir Stefán jafnframt.
Fjármunirnir munu koma að góðum notum þar sem framlögin sem þegar eru komin duga fyrir 214.000 skömmtum af vítamínbættu jarðhnetumauki.
Um milljón barna á það á hættu að láta lífið vegna vannæringar í kjölfar þurrka og uppskerubrests á svæðinu.
Upplýsingar um hvernig leggja má af mörkum til þessa málefnis má finna á unicef.is - þj
Tólf milljónir hafa safnast á Íslandi
