Viðskipti innlent

Þrjú tilboð í útboð skuldabréfa á Hörpu

Þrjár innlendar lánastofnanir skiluðu í gær inn tilboði til að sjá um skuldabréfaútgáfu til að endurfjármagna lántökur vegna byggingar tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu. Búist er við því að ákvörðun um við hverja þeirra verði samið liggi fyrir í lok næstu viku. Endurfjármögnuninni á að ljúka fyrir mitt þetta ár. Skuldabréfaútgáfan verður um 18,3 milljarðar króna til að hægt verði að endurgreiða sambankalán sem veitt var fyrir byggingu hússins og eigendalán sem íslenska ríkið og Reykjavíkurborg veittu eigenda þess í lok síðasta árs.

Pétur J. Eiriksson, stjórnarformaður Portusar ehf., sem heldur utan um eignarhald Hörpunnar, segir að næsta vika fari í það að meta þau tilboð sem skilað var inn. „Ég get ekki sagt til um hvenær þeirri vinnu muni ljúka. En okkar markmið er að vera búnir að klára endurfjármögnun félagsins ekki seinna en á miðju þessu ári."

Portus er dótturfélag Austurhafnar-TR, sem er eigandi Hörpu. Austurhöfn, sem er í 54 prósenta eigu íslenska ríkisins og 46 prósenta eigu Reykjavíkurborgar, tók sambankalán hjá íslenskum bönkum í janúar 2010 sem átti að fjármagna byggingu Hörpunnar að fullu. Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki veittu lánið. 17,1 milljarðs króna þak er á láninu, sem kostar eigendur Hörpunnar um einn milljarð króna á ári í kostnað. Því ríkir enn ákveðin óvissa um hver endanlegur kostnaður ríkis og borgar verður vegna Hörpu á meðan lánið hefur ekki verið endurfjármagnað.

Áætlaður heildarkostnaður vegna byggingar Hörpu, reksturs hennar fram að endurfjármögnun og kostnaðar vegna annarra byggingareita er áætlaður 17,7 milljarðar króna, eða hærri en sem nemur sambankaláninu. Vegna þessa þurftu eigendur Austurhafnar, íslenska ríkið og Reykjavíkurborg, að lána félaginu 730 milljónir króna í lok síðasta árs. Lánið er til eins árs og á að endurgreiðast að fullu þegar skuldabréfaútboðinu verður lokið.

Heildarkostnaður vegna Hörpu og tengdra verkefna, að meðtöldum afskrifuðum kostnaði, er áætlaður um 27,7 milljarðar króna. Þegar samningar um byggingu hússins voru undirritaðir í apríl 2002 var áætlaður kostnaður við framkvæmdina um sex milljarðar króna.

thordur@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×