Innlent

Vert að skoða Perluna undir safn

álitlegur kostur? Perlan er sífellt oftar nefnd sem mögulegt framtíðarhúsnæði Náttúruminjasafns Íslands.fréttablaðið/stefán
álitlegur kostur? Perlan er sífellt oftar nefnd sem mögulegt framtíðarhúsnæði Náttúruminjasafns Íslands.fréttablaðið/stefán
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, telur það áhugaverðan kost að Perlan í Öskjuhlíðinni verði nýtt sem húsnæði fyrir Náttúruminjasafn Íslands. Hún hefur óformlega rætt þennan kost við stjórnarmann Orkuveitu Reykjavíkur. Orkuveitan, sem er eigandi Perlunnar, hefur í hyggju að selja húsnæðið, eins og komið hefur fram í fréttum.

Þetta kom fram í óundirbúnum umræðum á Alþingi í gær en Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, innti þá ráðherra eftir hennar skoðunum varðandi húsnæðismál safnsins. Tilefnið er umræða í samfélaginu um hvort Perlan geti leyst aðkallandi húsnæðisþörf Náttúruminjasafnsins. Siv spurði ráðherra um annan kost í stöðunni, en það er hvort húsnæði lækningasafnsins á Seltjarnarnesi gæti hentað.

„Það er ýmislegt sem mælir með þessu húsnæði en það á eftir að skoða þetta," sagði Katrín sem hefur ekki leitað formlega til OR um framtíð hússins. Hún ítrekaði að kostnaður við hugmyndir um framtíðarhúsnæði safnsins væri mikilvægt atriði; ekki aðeins safnahúsið sjálft heldur kostnaður við sýningarhald og fleira.

Katrín hefur sent bréf til allsherjar- og menntamálanefndar þingsins þar sem boðað er til samræðu um málefni Náttúruminjasafnsins í heild.

- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×