Íslenski boltinn

22 ár síðan þjálfari byrjaði á útisigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bo Johansson.
Bo Johansson. Nordic Photos / Getty
Lars Lagerbäck getur í dag orðið fyrsti landsliðsþjálfari Íslands í rétt tæp 22 ár sem byrjar landsliðsþjálfaraferil sinn með sigri á útivelli. Það hefur ekki gerst síðan Ísland vann 2-1 sigur á Lúxemborg í fyrsta leik Svíans Bo Johansson 28. mars 1990.

Tveir síðustu landsliðsþjálfarar, Ólafur Jóhannesson og Eyjólfur Sverrisson, byrjuðu báðir með tapi á útivelli. Ísland tapaði 0-3 fyrir Dönum í fyrsta leik Ólafs sem var í Kaupmannahöfn og lá 0-2 á móti Dwight Yorke og félögum í Trínidad og Tóbagó en sá leikur fór fram í London.

Íslenska landsliðið hefur aðeins tvisvar unnið sinn fyrsta leik undir stjórn nýs landsliðsþjálfara á þessum 22 árum. Liðið vann 2-0 sigur á Spáni á Laugardalsvellinum í fyrsta leiknum undir stjórn Ásgeirs Elíassonar 25. september 1991 og vann síðan 2-1 sigur á Færeyjum á Laugardalsvellinum í fyrsta leiknum undir stjórn þeirra Ásgeirs Sigurvinssonar og Loga Ólafssonar sem fram fór 7. júní 2003.

Fyrsti leikur síðustu landsliðsþjálfara:

Ólafur Jóhannesson - 0-3 tap fyrir Danmörku (úti)

Eyjólfur Sverrisson - 0-2 tap fyrir Trínidad (úti)

Ásgeir og Logi - 2-1 sigur á Færeyjum (heima)

Atli Eðvaldsson - markalaust jafntefli við Noreg (úti)

Guðjón Þórðarson - 0-1 tap fyrir Noregi (heima)

Logi Ólafsson - 1-7 tap fyrir Slóveníu (úti)

Ásgeir Elíasson - 2-0 sigur á Spáni (heima)

Bo Johansson - 2-1 sigur á Lúxemborg (úti)

Sigfried Held - 1-2 tap fyrir Barein (úti)

Jóhannes Atlason - markalaust jafntefli við Kúvæt (úti)

Guðni Kjartansson - 0-4 tap fyrir Wales (heima)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×