Innlent

Forrit finnur barnaníð í tölvum

Íslenskt fyrirtæki sem hannað hefur tölvuforrit sem nýtist lögreglu við rannsókn á ólöglegu myndefni hóf í gær samstarf við breskt fyrirtæki til að koma forritinu í notkun erlendis.

Forritið, sem hefur verið í þróun hjá Videntifier Technologies síðustu ár, ber kennsl á myndefni án þess að mannsaugað komi þar nærri. Með því að bera myndbönd sem lögregla finnur á tölvum brotamanna saman við gagnagrunn getur forritið þekkt löglegt myndefni og sparað lögreglu að fara yfir það.

Þá getur lögregla einnig komið sér upp gagnagrunni með ólöglegu efni, til dæmis efni sem sýnir ofbeldi gegn börnum, og notað forritið til að finna myndbönd sem áður hafa komið til lögreglu, segir Friðrik Ásmundsson, þróunarstjóri hjá Videntifier.

Forritið getur hlíft lögreglumönnum við það ógeðfellda verkefni að horfa á slík myndbönd upp að vissu marki.

Forritið var þróað í samstarfi við lögregluyfirvöld hér á landi, og hefur verið í notkun hér í tvö ár, segir Friðrik. Forritið hefur þegar verið selt til lögregluembætta í Bretlandi, og til stendur að koma því í notkun víðar í Evrópu. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×