Erlent

Varaforsetinn einn í framboði til forseta

Stemning á kjörstað Jemenar veifa persónuskilríkjum, hæstánægðir með tækifæri til að kjósa einhvern annan en Saleh.nordicphotos/AFP
Stemning á kjörstað Jemenar veifa persónuskilríkjum, hæstánægðir með tækifæri til að kjósa einhvern annan en Saleh.nordicphotos/AFP mynd/afp
Abed Rabbo Mansour Hadi, varaforseti Jemens, var eini frambjóðandinn í forsetakosningum sem haldnar voru í gær.

Mikil stemning virtist engu að síður vera í þjóðfélaginu fyrir þessum kosningum, enda gafst landsmönnum þar tækifæri til að staðfesta endanlega brotthvarf forvera hans, Ali Abdullah Saleh, sem hafði ríkt í 33 ár.

Saleh féllst á, á síðasta ári, að segja af sér í kjölfar fjölmennra mótmæla, óeirða og átaka sem stóðu mánuðum saman. Hann setti þó það skilyrði að varaforseti sinn yrði kosinn forseti.

Saleh er fjórði leiðtogi arabaríkis sem missir völdin vegna mótmælaöldunnar sem fór af stað í arabaheiminum fyrir rúmu ári.

Saleh verður þó áfram búsettur í landinu, hefur fullt frelsi til að taka þátt í stjórnmálum og getur hæglega haft mikil áhrif enn.

Sjálfur segist hann ætla að þjóna landinu áfram, en kvaddi þó völdin í sjónvarpsávarpi á mánudagskvöld og hvatti landsmenn til að taka þátt í kosningunum.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×