Viðskipti innlent

Nýr framkvæmdastjóri ráðinn á næstu tíu dögum

Hættur Finnbogi Jónsson var framkvæmdastjóri Framtakssjóðsins frá stofnun hans og þar til í byrjun janúar 2012. Fréttablaðið/Stefán
Hættur Finnbogi Jónsson var framkvæmdastjóri Framtakssjóðsins frá stofnun hans og þar til í byrjun janúar 2012. Fréttablaðið/Stefán
Stjórn Framtakssjóðs Íslands (FSÍ) vonast til þess að ráða nýjan framkvæmdastjóra á næstu dögum. Þetta staðfestir Þorkell Sigurlaugsson, stjórnarformaður FSÍ, í samtali við Markaðinn. Finnbogi Jónsson, sem stýrt hafði sjóðnum frá stofnun hans, lét af störfum í byrjun janúar.

Þorkell vill ekki gefa upp hversu margir hafi sótt um framkvæmdastjórastarfið en segir að ekki sé búið að ganga frá ráðningu. „Ég á von á því að þetta klárist innan viku til tíu daga. Það þarf að vanda sig í svona ferli. En það fer að styttast í þessu."

FSÍ var stofnsettur í lok árs 2009 af sextán lífeyrissjóðum. Tilgangur hans var að taka þátt í og móta fjárhags- og rekstrarlega endurreisn íslensks atvinnulífs í kjölfar bankahruns. Síðar komu Landsbankinn, sem nú er stærsti einstaki eigandi sjóðsins, og VÍS inn í eigendahópinn.

Í endurmati á eignum FSÍ, sem Finnbogi kynnti daginn áður en hann hætti störfum hjá sjóðnum, kom fram að virði þeirra hefði aukist um tæplega 100% á fyrsta fjárfestingaári sjóðsins. Samkvæmt því endurmati var virði eignanna um 33,3 milljarðar króna um mitt ár 2011 og hafði þá aukist um 16,6 milljarða króna á einu ári. - þsj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×