Viðskipti innlent

Sveiflur í álverði voru HS Orku dýrar í fyrra

Afleiða Þróun á heimsmarkaðsverði á áli kostaði HS Orku um 1,5 milljarða króna í fyrra. 
Mynd/Hreinn Magnússon
Afleiða Þróun á heimsmarkaðsverði á áli kostaði HS Orku um 1,5 milljarða króna í fyrra. Mynd/Hreinn Magnússon
Lækkun á heimsmarkaðsverði á áli kostaði HS Orku tæpa 1,5 milljarða króna á síðasta ári. Auk þess var gengistap fyrirtækisins um 850 milljónir króna. Þessir þættir urðu fyrst og síðast til þess að HS Orka tapaði 937 milljónum króna í fyrra. Þetta kemur fram í ársreikningi fyrirtækisins sem birtur var í síðustu viku.

Hluti orkusölusamninga HS Orku er bundinn við sveiflur í heimsmarkaðsverði á áli, sem hefur lækkað um þriðjung frá því að það reis hæst sumarið 2008. Álframleiðendur hafa í kjölfarið dregið framleiðslu sína mikið saman. Þrátt fyrir það búast greinendur við að offramboð verði á áli á þessu ári og hinu næsta.

Í ársreikningnum kemur einnig fram að stjórnunarkostnaður HS Orku jókst úr 181 í 521 milljón króna í fyrra. Í skýringum með reikningnum kemur fram að þorri þess viðbótarkostnaðar sé vegna gerðardómsmáls í Svíþjóð þar sem fyrirtækið tókst á við Norðurál um hvort orkusölusamningur frá árinu 2007 milli þeirra skyldi standa.

Niðurstaða gerðardómsins, sem lá fyrir í desember í fyrra, var sú að samningurinn skyldi gilda en að hann verði að skila HS Orku viðunandi arðsemi, sem er sérstaklega tilgreind í niðurstöðunni. Í kjölfarið hafa viðræður staðið yfir á milli HS Orku og Norðuráls vegna málsins, en orkan sem um ræðir á að nýtast í rekstur fyrirhugaðs álvers í Helguvík. - þsj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×