Erlent

Boðar stórfellda vígvæðingu

Vladimír Pútín, forsætisráðherra Rússlands, lofar því að kaupa ógrynnin öll af nýjum vopnum fyrir rússneska herinn verði hann kosinn forseti landsins á ný.

Tæplega hálfur mánuður er til forsetakosninga í Rússlandi. Samkvæmt skoðanakönnunum getur Pútín átt von á um það bil 50 prósenta fylgi, en aðrir frambjóðendur fá varla meira en tíu prósent hver.

Pútín segir, í dagblaðsgrein sem birtist um helgina, að öryggis náttúruauðlinda Rússlands sé ekki gætt nógu vel. Þess vegna ætlar hann að verja 230.000 milljörðum rúblna, eða nærri 95.000 milljörðum króna, næstu tíu árin til kaupa á meira en 400 langdrægum flugskeytum, meira en 600 orrustuþotum, tugum kafbáta og þúsundum skriðdreka.

„Við megum ekki leiða neinn í freistni með veikleika okkar," skrifar Pútín í dagblaðið Rossískaja Gazeta.

Áform Bandaríkjamanna um að koma upp eldflaugavarnakerfi í Evrópu gera það að verkum, að mati Pútíns, að öflug vígvæðing Rússlands verði enn brýnni.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×