Innlent

Annasamt ár hjá ríkissáttasemjara

Magnús Pétursson
Magnús Pétursson
Alls 63 kjaradeilum var vísað til ríkissáttasemjara á árinu 2011. Aðeins einu sinni hefur fleiri málum verið vísað til embættisins á einu ári.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í ársskýrslu ríkissáttasemjara fyrir árið 2011. Auk þeirra mála sem vísað var til embættisins voru fjórar óleystar deilur á borði þess í upphafi ársins. Því voru alls 67 kjaradeilur teknar til meðferðar hjá ríkissáttasemjara árið 2011.

Í deilunum 67 voru samningar síðar felldir í atkvæðagreiðslu í einungis fimm tilfellum. Deilurnar leystust þó allar síðar á árinu með samþykktum samningi. Stærstum hluta málanna lauk með samþykktum samningi í fyrstu tilraun eða alls 52 málum. Önnur mál voru leyst með sérstöku samkomulagi, samningum án beinnar aðildar sáttasemjara eða þá að málin voru dregin til baka eða talin ótæk til sáttameðferðar.

Á síðustu tíu árum hefur fjöldi mála sem vísað er til embættisins ekki farið yfir 40 mál utan ársins í fyrra. Árin 2000 og 2001 var hins vegar 44 málum og 53 málum vísað til embættisins. Árið 1997 var aftur á móti hið annasamasta í sögu embættisins en þá var 101 máli vísað til þess.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×