Innlent

Trufla starfsemi Leitarstöðvar

Álag á starfsfólk Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins hefur aukist eftir að konur með aðra silíkonpúða en PIP fyllingar byrjuðu að leita þangað í auknum mæli.
Álag á starfsfólk Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins hefur aukist eftir að konur með aðra silíkonpúða en PIP fyllingar byrjuðu að leita þangað í auknum mæli.

Konur með aðrar silíkonfyllingar en hina umdeildu PIP púða leita nú í auknum mæli til Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins eftir ómskoðun, segir yfirlæknir á stöðinni.



„Umræðan í samfélaginu hefur gert þessar konur áhyggjufullar,“ segir Kristján Sigurðsson yfirlæknir. „Það er mikið álag á símanum hjá okkur alla daga þar sem beðið er um tíma í ómskoðun, þó svo ekki sé um PIP brjóstafyllingar að ræða. Og það truflar starfsemi Leitarstöðvarinnar.“



Kristján sendi öllum læknum bréf í vikunni þar sem hann benti á að hægt sé að fá ómskoðun á fleiri stöðum en á Leitarstöðinni. Dæmi eru um að læknar skrifi út beiðni um ómskoðun fyrir konur með silíkon án þess að nokkur einkenni séu fyrir hendi sem bendi til þess að púðar séu sprungnir.



Alls voru 42 konur með PIP brjóstafyllingar ómskoðaðar síðustu tvo daga. Samkvæmt upplýsingum frá Landlæknisembættinu er þó ekki búið að taka saman nýjustu tölur um lekatíðni, en þær verða birtar á mánudag. 68 prósent af þeim 105 konum sem skoðaðar voru á síðustu tveimur vikum voru með leka púða. Alls hafa nú 147 konur með PIP púða verið skoðaðar á Leitarstöðinni.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×