Innlent

Reykjavíkurskákmótið í Hörpu

Reykjavíkurskákmótin hafa lengi gefið ungum íslenskum skákmönnum tækifæri til að reyna sig gegn sterkum alþjóðlegum meisturum. fréttablaðið/daníel
Reykjavíkurskákmótin hafa lengi gefið ungum íslenskum skákmönnum tækifæri til að reyna sig gegn sterkum alþjóðlegum meisturum. fréttablaðið/daníel

Skáksamband Íslands og Harpa hafa gert með sér samkomulag um að Alþjóðlega Reykjavíkurskákmótið verði haldið í Hörpunni næstu þrjú ár. Ríflega 20 stórmeistarar eru þegar skráðir til leiks á Reykjavíkurmótinu 2012, en þekktastur þeirra er tékkneski stórmeistarinn David Navara, en hann hefur 2.712 alþjóðleg skákstig. Þátttaka er öllum opin.



Reykjavíkurskákmótið er eitt elsta skákmót í heimi. Í fyrra tóku þátt um 170 skákmenn víðs vegar að úr heiminum. Stefna móts- og styrktaraðila er að stækka mótið enn á komandi árum. Er þá sérstaklega horft til ársins 2014 en þá verður hálf öld liðin síðan fyrsta mótið var haldið og hinn goðsagnakenndi fyrrum heimsmeistari, Mikhaíl Tal, kom, sá og sigraði með tólf og hálfum vinningi af þrettán mögulegum.



Teflt verður í Flóanum svonefnda sem er rýmið fyrir aftan veitingastaðinn Munnhörpuna. Skákskýringar verða í sérstöku rými sem er innangengt úr skáksal. Stefnt er að því að risaskjár verði í veitingarýminu þar sem skákmenn og áhugafólk geta sest og skoðað skákirnar á sama tíma og þær eru tefldar. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×