Viðskipti erlent

Rybolovlev keypti dýrstu fasteignina í Bandaríkjunum 2012

Magnús Halldórsson skrifar
Dýrasta fasteignin, sem keypt var í Bandaríkjunum, er í þessu húsi. Hún kostaði tæplega 12 milljarða króna. Mynd/ AP
Dýrasta fasteignin, sem keypt var í Bandaríkjunum, er í þessu húsi. Hún kostaði tæplega 12 milljarða króna. Mynd/ AP
Rússneski auðmaðurinn Dmitry Rybolovlev borgaði eitt hæsta verð sem greitt hefur verið fyrir fasteign í Bandaríkjunum í febrúar sl., en greint var fyrst frá viðskiptunum í byrjun desember á þessu ári. Hann greiddi 88 milljónir dala, jafnvirði um 11,7 milljarða króna, fyrir íbúð á efstu hæð í fjölbýlishúsi á Manhattan, en seljandinn var fyrrverandi starfsmaður Citigroup bankans.

Íbúðin er tíu herbergja, þar af fjögur svefnherbergi. Íburðurinn er mikill, svo ekki sé fastar að orðið kveðið, samkvæmt frásögn Forbes.

Ryboloev hefur rokið upp listann yfir ríkustu menn heims undanfarin ár, en hann var í 79. sæti í fyrra. Síðan þá hefur hann látið til sín taka í fjárfestingum, meðal annars í Mónakó. Hann er nú meðal annars eigandi knattspyrnuliðsins FC Monaco. Grunnurinn að auðævum hans tengist olíuviðskiptum í Rússlandi.

Sjá má lista yfir stærstu fasteignakaup milljarðamæringa í Bandaríkjunum á árinu 2012, samkvæmt samantekt Forbes, hér.

Í öðru sæti á listanum yfir dýrustu keyptu eignina er vogunarsjóðsstjórinn John Paulson, sem hagnaðist um 20 milljarða dala, ríflega 2.500 milljarða króna, með því að taka skortstöðu gegn fasteignamarkaðnum í Bandaríkjunum árin 2006 og 2007. Skrifuð hefur verið bók um þau viðskipti, sem nefnist The Greates Trade Ever. Fasteignin sem Paulson keypti var skammt frá skíðasvæðinu í Aspen.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×