Innlent

Vitna­leiðslum lokið í Vafningsmálinu

Stígur Helgason skrifar
Lárus Welding er einn sakborninga í málinu.
Lárus Welding er einn sakborninga í málinu. Mynd/ GVA.

Vitnaleiðslum í Vafningsmáli sérstaks saksóknara er nú lokið. Alls komu 33 vitni fyrir dóminn þá þrjá daga sem vitnaleiðslur hafa staðið.



Síðasta vitnið var Guðmundur Haukur Gunnarsson, annar mannanna sem kallaðir hafa verið aðalrannsakendur málsins. Guðmundur sætir nú rannsókn ríkissaksóknara ásamt Jóni Óttari Ólafssyni fyrir að hafa selt þrotabúi Milestone trúnaðarupplýsinga sem þeir öfluðu sér við rannsóknir sínar hjá sérstökum saksóknara.



Guðmundur gerði raunar mjög lítið úr þætti sínum í rannsókninni og sagði hana fyrst og fremst hafa verið í höndum Jóns Óttars. Sjálfur hafi hann aðallega verið í öðrum málum og „á hliðarlínunni" í Vafningsmálinu. Það er í ósamræmi við framburð þeirra sem komið hafa fyrir dóminn og tilgreint bæði Guðmund og Jón Óttar sem aðalrannsakendur málsins.



Guðmundur neitaði, eins og Jón Óttar gerði á þriðjudag, að svara spurningum um rannsóknina á hendur þeim. Hann staðfesti þó, líkt og Jón Óttar, að hann hefði einnig unnið fyrir þrotabú Glitnis eftir að störfum hans hjá sérstökum saksóknara lauk um síðustu áramót.



Nú tekur við hlé á réttarhöldunum til mánudagsmorguns, þegar saksóknari og verjendur munu flytja málið. Gert er ráð fyrir að það muni taka um sex klukkustundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×