Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: Valur - HK 25-26

Sigmar Sigfússon í Vodafonehöllinni skrifar
Kristinn Guðmundsson, þjálfari HK.
Kristinn Guðmundsson, þjálfari HK. mynd/vilhelm
HK-ingar stálu sigrinum af Valsmönnum á lokamínútunum í Vodafonehöllini, 25–26, í lokaleik 8. umferðar N1-deildar karla í handbolta í dag. Valsmenn komu einbeittari til leiks í fyrri hálfleik og spiluðu ágætis vörn á köflum þar sem nokkuð góð markvarsla fylgdi í kjölfarið frá Hlyni Morthens, markmanni Vals.

Leikurinn var mjög hraður í upphafi hálfleiksins og mikið var skorað á fyrstu tíu mínútum leiksins þegar staðan var 5–4 fyrir Valsmenn. Um miðbik hálfleiksins gengu Valsmenn á lagið og náðu þegar mest var fjögurra marka forystu þar sem HK-ingarnir gerðu klaufaleg mistök og köstuðu boltanum nokkrum sinnum frá sér. Hlynur varði nokkra mikilvæga bolta sem skiluðu sér í mörkum upp úr hraðarupphlaupum.

 

Síðustu fimm mínúturnar tóku HK-ingar sig á og minnkuðu bilið í 14–12 þegar dómarar leiksins flautuðu til hálfleiks. Björn Ingi, markmaður HK, átti fínan spett á lokamínútunum. Bjarki Már Gunnarsson, hinn hávaxni línumaður HK, fékk að líta rauða spjaldið á 7. mínútu þegar hann gaf Valsmanni viljandi olgnbogaskot að mati dómara.

 

Jafnræði var með liðunum í upphafi seinni hálfleiks og skiptust liðin á að skora. Valsmenn héldu tveggja marka forystu sinni þar til á 40 mínútu þegar Daníel Berg Grétarsson jafnar leikinn fyrir sína menn í HK, í stöðuna 21-21. Patrekur Jóhannesson, þjálfari Valsmanna, hafði rétt áður tekið leikhlé sem skilaði litlu. Í stöðunni 21–22 varði Björn Ingi Friðþjófsson mjög mikilvægt víti sem Valdimar Þórsson tók, fyrir það hafði hann verið mjög öruggur af punktinum.

 

HK-menn ætluðu sér sigurinn og keyrðu vel á Valsmenn á síðustu mínútunum, en loka mínúturnar voru afar spennandi þar sem Valsmenn fengu tvö tækifæri til þess að jafna leikinn en nýttu ekki.

Fór svo að HK-ingar uppskáru afar mikilvægan eins marka sigur hérna í Vodafonehöllinni og losnuðu undan þungri pressu sem hefur verið á þeim eftir nokkra leikja taphrinu. Markahæstu menn voru Valdimar Þórsson hjá Val með átta mörk og Bjarki Már Elísson hjá HK með níu mörk.

 

Liðin höfðu sætaskipti á töflunni eftir þennan leik, þar sem HK skellti sér uppfyrir Val í sjötta sæti og Valsmenn niður í það sjöunda

 

Ólafur Víðir:  Það er karakter í þessu liði

 

„Það er gríðarlegur karakter í liðinu, við missum Bjarka út af á fyrstu sjö mínútunum og svo erum við bara að elta allan tímann. Þetta var eiginlega kærkominn þjófnaður, en liðið á ákveðið hrós skilið,“

sagði Ólafur Víðir Ólafsson, fyrirliði HK eftir leikinn.

 

„Það eru einhver kíló farin af pressu og þetta er líka svo gott fyrir hópinn sem slíkan. Við erum allir mjög góðir vinir og þetta er frábær hópur og við sáum það alveg í dag að við erum klárir í svona leiki“

 

„Við eigum helling inni og það sást eitthvað af því hérna í dag. Við misstum til að mynda Bjarka út og þá kemur bara maður í manns stað. Það kemur línumaður inn á, Tryggvi sem er ungur strákur og spilaði bara fanta vel. Við erum í meiðslavandræðum núna svo það er virkilega gaman að sjá aðra koma inn“

 

Patrekur: Það var góður möguleiki að klára þennan leik

 

„Það er alltaf fúlt að tapa, sérstaklega þar sem það var góður möguleiki á því að vinna þenna leik í dag. En við náðum því ekki og getum eiginlega bara sjálfum okkur um kennt. Það vantaði drápseðlið til þess komast lengra fram úr þeim og klára svo leikinn. Mistökin voru að koma á mjög slæmum tíma svo þetta er afar svekkjandi,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Valsmanna.

 

„Grunnurinn er að mæta í leiki og leggja sig 100% fram og reyna að fara eftir skipulagi, það er það sem ég segi við strákana. En þeir eru ungir og ráða ef til vill síður við pressuna sem fylgir svona jöfnum leikjum, því miður en þetta er að koma“

 

„Það eru gæði í þessu liði, ef við hefðum unnið þennan leik hefðum við farið upp um tvö sæti á töflunni en í staðinn förum við eitt niður svo þetta er allt galopið. Ég get eiginlega ekki verið svekktur út í strákana, þeir eru búnir að leggja sig 100% fram á æfingum og skoða video, þannig að það þýðir ekkert að væla þó við töpum einum leik“

 

„Nú erum við að koma upp með stráka sem eru uppaldir í klúbbnum sem hefur ekki verið síðastliðin ár. Þannig að ég vill sjá fleiri koma á völlinn til þess að sjá sína menn, en ég þakka samt kærlega fyrir þá sem komu“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×