„Stúlkurnar í Pussy Riot ættu ekki að vera bak við lás og slá." Þetta sagði Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands þegar hann ræddi við stúdenta í Moskvu í dag.
Þetta er skjön við það sem Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur sagt um stúlkurnar þrjár sem dæmdar voru til tveggja ára fangelsisvistar fyrir guðlast og ólæti.
Pönkbæn stúlknanna í bænahúsi rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar vakti heimsathygli fyrr á þessu ári.
Stúlkurnar áfrýjuðu dóminum. Í kjölfarið var Yekaterina Samutsevich frelsuð. Dómurinn yfir vinkonum hennar, þeim Mariu Alekhina og Nadezhda Tolokonnikova, var hins vegar staðfestur.
Medvedev sagði í dag að uppákoma stúlknanna hefði sannarlega verið ógeðfelld. Engu að síður ættu þær ekki skilið að sitja í fangelsi fyrir brot sín.