Íslenski boltinn

Hver er þessi Chukwudi Chijindu sem er að slá í gegn hjá Þór?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chukwudi Chijindu.
Chukwudi Chijindu. Mynd/Nordic Photos/Getty
Chukwudi Chijindu skoraði bæði mörk Þórsara í 2-1 sigri á Víkingum í toppslag 1. deildar karla í Ólafsvík í gær. Chijindu hefur skorað fjögur mörk í fyrstu þremur leikjum sínum með Þór og er þegar orðinn markahæsti leikmaður liðsins í sumar.

Þórsliðið komst upp í annað sætið með þessum sigri og getur komist upp fyrir Ólafsvíkur-Víkinga með því að vinna leikinn sem liðið á inni.

Það er hægt að sjá bæði mörkin hans Chukwudi Chijindu í Ólafsvík í gær með því að fara inn á Sporttv.is en mörkin skoraði hann með sex mínútna millibili í fyrri hálfleiknum.

Chijindu skoraði fyrra markið með stórglæsilegu skoti utarlega úr teignum eftir skemmtileg tilþrif og það seinna eftir laglega skyndisókn og stoðsendingu frá Ármanni Pétri Ævarssyni.

Það er hægt að sjá svipmyndir úr leiknum inn á Sporttv eða með því að smella hér. Mörk Chijindu koma á 1:12 og 1:50 í þessu myndbandi.

Chukwudi Chijindu er 26 ára og 175 sm framherji sem lék á sínum tíma með Chivas í bandarísku atvinnumannadeildinni. Hann kom til Þórsliðsins í júlí og með sama áframhaldi mun hann skjóta liðinu upp í Pepsi-deild karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×