Íslensk stjórnvöld komu áhyggjum sínum af máli kvennanna í Pussy Riot á framfæri við rússnesk stjórnvöld áður en dómur féll í máli þeirra á föstudag. Engin ákvörðun hefur verið tekin um að bregðast við dómnum sjálfum en utanríkisráðherra skorar á yfirvöld að fella dóminn úr gildi.
Þrír meðlimir pönksveitarinnar Pussy Riot voru dæmdar í tveggja ára ára fangelsi í Rússlandi á föstudag fyrir gjörning sem þær frömdu í kirkju Rússnesku réttrúnaðarkirkjunnar í Moskvu. Þar mótmæltu þær stjórnarháttum í landinu og kröfðust afsagnar Pútíns forseta. Yfirvöld víða um heim og embættismenn Evrópusambandsins hafa þegar fordæmt dóminn harðlega. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir að íslensk stjórnvöld hafi þegar komið áhyggjum sínum af málinu á framfæri.
„Við tókum þá ákvörðun að koma okkar þungu áhyggjur á framfæri við rússnesk stjórnvöld áður en dómurinn var kveðinn upp til þess að reyna að hafa einhver áhrif," sagði Össur Skarphéðinsson sem telur dóminn bæði óvæginn og harðann og úr samhengi við brotið.
Össur segir að það hafi verið ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins sem hafi komið áhyggjum íslenskra stjórnvalda á framfæri við sendiherra Rússlands hér á landi.
Hvað varðar formleg mótmæli við dómnum sjálfum segir Össur að engin ákvörðun hafi verið tekin um frekari viðbrögð. „Ég skora á rússnesk stjórnvöld, að þegar málið verður skoðað við áfrýjun, verði dómurinn felldur úr gildi," sagði Össur.