Sport

Ófrísk seglbrettakona hætt við þátttöku

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/Getty
Fulltrúar Ólympíuhóps Portúgala gagnrýndu í dag Carolinu Borges, 33 ára seglbrettakonu, sem tilkynnti í tölvupósti að hún væri hætt við þátttöku á leikunum. Þá sökuðu þeir hana um að hafa haldið þeirri staðreynd leyndri að hún væri ólétt.

Borges sagði í samtali við dagblaðið A Bola að hún hefði líkast til keppt þrátt fyrir meðgöngu sína hefði hún fengið meiri stuðning frá Ólympíuhópi Portúgala.

„Ég er komin þrjá mánuði á leið. Þetta veldur mér vonbrigðum en ímyndið ykkur ef ég hefði slasað mig á meðan ég var ólétt, hvað þá?"

„Ég fékk hvorki fjárhagslegan eða móralskan stuðning. Ég ákvað að hætta við þar sem ég fékk engan stuðning," sagði Borges sem heldur því fram að hefði stuðningur frá þjálfara verið fyrir hendi hefði hún tekið áhættuna og keppt.

Fulltrúar úr Ólympíuhópi Portúgala svarar fyrir gagnrýni Borges og meira til. Í yfirlýsingu sem hópurinn sendi Reuters segir að Borges hafi vísvitandi leynt meðgöngu sinni.

Hún hafi haft þjálfara líkt og aðrir í keppnisgrein sinni auk þess sem hún hafi fengið fjárhagslegan stuðning. Hann hafi að vísu borist seinna en lagt var upp með þar sem hún hafi gefið upp rangar bankaupplýsingar.

„Þetta kemur okkur í opna skjöldu. Íþróttamanninum er skylt að upplýsa okkur um öll læknisfræðilega tengd mál og það gerði hann ekki," segir í yfirlýsingunni.

Borges keppti fyrir hönd Brasilíu á Ólympíuleikunum í Aþenu 2004 en keppir í dag fyrir hönd Portúgals.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×