Sport

Sendur heim fyrir að reyna ekki á sig

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Makhloufi fagnar sigrinum í undanúrslitum 1500 metra hlaupsins.
Makhloufi fagnar sigrinum í undanúrslitum 1500 metra hlaupsins. Nordicphotos/Getty
Taoufik Makhloufi, frjálsíþróttakappi frá Alsír, hefur verið sendur heim af Alþjóðafrjálsíþróttasambandinu fyrir að reyna ekki á sig í undanrásum 800 metra hlaupsins í dag.

Makhloufi ætlaði að einbeita sér að 1500 metra hlaupinu þar sem hann náði besta tímanum í undanúrslitunum. Alsírska Ólympíuhópnum láðist hins vegar að draga hann úr keppni í 800 metra hlaupinu í gær þegar frestur til þess rann út.

Makhloufi átti því ekki annarra kosta völ en að mæta til leiks í dag. Eftir um 200 metra hlaup hætti hann keppni og gekk útaf brautinni.

„Dómarinn mat það svo að hann hefði ekki gert sitt besta og ákvað að útiloka hann frá frekari keppni á leikunum," sagði í yfirlýsingu frá Alþjóðafrjálsíþróttasambandinu.

Óhætt er að segja að Alsíringar séu allt annað en sáttir enda Makhloufi líklegur til afreka í úrslitum í 1500 metra hlaupinu.

Eina von Makhloufi um frekari þátttöku er sú að hann fái læknisvottorð sem sýni að hann hafi í raun hætt þátttöku í 1500 metra hlaupinu vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×