Íslenski boltinn

Umfjöllun og viðtöl: KR - HJK Helsinki 1-2 | KR-ingar úr leik

Benedikt Grétarsson á KR-velli skrifar
Mynd/Daníel
KR-ingar eru úr leik í Evrópukeppninni eftir 1-2 tap á KR-vellinum fyrir finnsku meisturunum í HJK Helsinki í seinni leik liðanna í forkeppni Meistaradeildarinnar. Finnarnir unnu fyrri leikinn 7-0 og þar með 9-1 samanlagt. Emil Atlason skoraði eina mark KR þegar hann minnkaði muninn 17 mínútum fyrir leikslok.

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, hvíldi lykilmenn sína í kvöld og yngri leikmenn leikmannahópsins fengu dýrmæta reynslu í Evrópukeppni en fyrir leikinn var ljóst að KR átti enga möguleika á því að komast áfram.

Berat Sadik og Mathias Lindström komu HJK Helsinki í 2-0 með mörkum með sex mínútna millibili um miðjan seinni hálfleik en Emil Atlason minnkaði muninn á 73. mínútu eftir sendingu frá Dofra Snorrasyni.

Fyrri hálfleikur bar þess merki að bæði lið vissu að úrslitin væru ráðin. Leikmenn spiluðu boltanum hægt á milli sín og fáar hættulegar sóknir litu dagsins ljós. Gestirnir komust nokkrum sinnum í álitlegar stöður en skorti einbeitingu til að gera sér mat úr þeim. KR-ingar gerðu sjö breytingar á liðinu sem tapaði fyrri leiknum og það sást að leikmenn voru ekki alveg innstilltir á hvorn annan. Heimamönnum gekk bölvanlega að koma sér í færi og voru í raun aldrei líklegir til stórræða fyrstu 45 mínúturnar. Varnarlína KR spilaði vel í fyrri hálfleik og gaf fá færi á sér.

Síðari hálfleikur var rólegur framan af en á átta mínútna kafla voru skoruð þrjú mörk. Gestirnir skoruðu tvö mörk á sex mínútna kafla en Emil Atlason lagaði stöðuna fyrir heimamenn eftir fínan undirbúning Dofra Snorrasonar. Leikurinn varð fjörugri í kjölfarið en liðin náðu ekki að bæta við fleiri mörkum þrátt fyrir ágætis marktækifæri. Lokastaðan 1-2 og samanlagt 1-9. KR-ingar eru því komnir í frí í Evrópukeppninni en HJK mætir Glasgow Celtic í næstu umferð.

KR-liðið spilaði þennan leik ágætlega þrátt fyrir að möguleikarnir hafi verið litlir. Ungir leikmenn fengu tækifæri í kvöld og stóðu sig með sóma. Emil Atlason skoraði gott mark og hefði átt að bæta við öðru undir lok leiksins. Miðverðirnir Grétar og Aron Bjarki voru traustir og Björn Jónsson átti ágætan leik á miðjunni. HJK Helsinki er ágætt fótboltalið en KR-ingar eiga samt ekki að tapa fyrir þeim með átta marka mun.

Rúnar Kristinsson: Fyrri leikurinn var slys
Mynd/Valli
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var nokkuð brattur eftir leikinn þrátt fyrir tap. „Mér fannst við frábærir í fyrri hálfleik og gáfum engin færi á okkur. Það var auðvitað ansi erfitt verkefni en mér fannst allir strákarnir spila vel, ekki síst þessir ungu leikmenn sem fengu sénsinn."

Rúnar gaf ekki mikið fyrir dómara leiksins, Steven McLean. „Hann flautar á allt sem við gerum en sleppir svo augljósri vítaspyrnu þegar Aroni er hrint þegar hann er að fara setja boltann í markið." Rúnar hefur ekki sérstaklega miklar áhyggjur af stöðu íslenskrar knattspyrnu þrátt fyrir að Islandsmeistararnir hafi tapað illa fyrir þessu finnska liði.

„Fyrri leikurinn var slys en þetta er oft svona á móti fótboltamönnum sem hafa knattspyrnu sem atvinnu sína. Þeir þefa uppi veikleika og refsa grimmilega fyrir hver mistök. Ég vil meina að við séum á engan hátt svona miklu lélegri en þetta lið, sama hvað markatalan segir."

Emil Atlason: Svekktur að skora ekki tvö mörk
Mynd/Daníel
Emil Atlason var sprækur í framlínu KR og skoraði gott mark. „Við reyndum að hafa einhverja trú á þessu en þetta var auðvitað lítill séns. Allir reyndu að gera sitt besta og við reyndum að fylgja fyrirmælum Rúnars að halda boltanum vel innan liðsins."

Emil var ósáttur að ná ekki að setja tvö mörk í kvöld. „Ég er frekar mikið svekktur að hafa ekki sett hann hérna undir lokin en svona er þetta stundum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×