Íslenski boltinn

Eyjamenn rúlluðu Hetti upp

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eyjamenn eru á góðri siglingu þessa dagana.
Eyjamenn eru á góðri siglingu þessa dagana. Mynd / Guðmundur Bjarki
Pepsi-deildarlið ÍBV tryggði sér sæti í átta liða úrslitum Borgunarbikars karla í knattspyrnu með 6-1 heimasigri á Hetti sem leikur í 1. deild. Eyjamenn leiddu 4-0 í hálfleik en heimamenn höfðu mikla yfirburði í leiknum.

Daninn öskufljóti Christian Olsen kom ÍBV yfir strax á 2. mínútu og Tryggvi Guðmundsson bætti öðru marki við á 24. mínútu. Grafarvogsbúinn Gunnar Már Guðmundsson, sem er allur að koma til eftir erfið meiðsli, bætti þriðja markinu við á 28. mínútu og björninn svo gott sem unninn.

Það var svo Christian Olsen sem bætti við fjórða markinu á 38. mínútu og fékk heiðursskiptingu í leikhléi.

Gestirnir minnkuðu muninn á 57. mínútu með marki Garðars Más Grétarssonar á 57. mínútu en komust ekki nær. Englendingurinn Aaron Spear skoraði fimmta markið á 66. mínútu og Þórarinn Ingi Valdimarsson það sjötta úr vítaspyrnu á 78. mínútu.

Eyjamenn eru komnir í átta liða úrslit keppninnar en Austfirðingar eru úr leik.

Upplýsingar um markaskorara fengust á Úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×