Íslenski boltinn

Lagerbäck: Ég var bara vonsvikinn með fyrstu fimmtán mínúturnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lars Lagerbäck.
Lars Lagerbäck. Mynd/Stefán
Lars Lagerbäck, þjálfari íslenska landsliðsins í fótbolta segir íslenska landsliðið vera á réttri leið en liðið tapaði 2-3 á móti Svíum í kvöld og hefur þar með tapað öllum fjórum leikjum sínum eftir að Lars tók við.

„Við vorum alltof passívir í upphafi leiksins og gáfu þeim alltof mikil tíma og of stór svæði til að vinna á. Þetta er samt að verða betra og betra hjá okkur en ég þarf bara að ýta aðeins á strákana til að vera grimmari varnarlega," sagði Lars en Svíar voru komnir í 2-0 eftir aðeins fjórtán mínútur.

Kolbeinn Sigþórsson minnkaði muninn í 2-1 en slæm varnarmistök færðu Svíunum þriðja markið á silfurfati þrettán mínútum fyrir leikslok.

„Liðið var að spila vel fram að því að þeir skora þriðja markið. Við gáfum það mark og megum bara ekki gera svona mistök ef við ætlum okkur að vinna einhverja leiki," sagði Lars en hann er sáttur eftir tvö 2-3 töp í röð á móti mjög sterkum þjóðum sem eru á leiðinni í úrslitakeppni EM.

„Eins og ég talaði um eftir Frakkaleikinn þá hafa þetta verið mjög góðir dagar fyrir okkur. Strákarnir eru búnir að leggja sig mikið fram og hafa rétta hugarfarið. Ég var aðeins vonsvikinn með fyrstu fimmtán mínúturnar í dag," sagði Lars en það er hægt að finna lengra viðtal við hann í Fréttablaðinu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×