Íslenski boltinn

Strákarnir einu marki frá undanúrslitunum - töpuðu fyrir Georgíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Íslenska 17 ára landsliðið í fótbolta tapaði 0-1 fyrir Georgíu í lokaleik sínum í sínum riðli í úrslitakeppni Evrópumóts 17 ára og yngri sem stendur nú yfir í Slóveníu. Íslenska liðið hefði komist í undanúrslit hefði strákunum tekist að jafna leikinn.

Það var varamaðurinn Dato Dartsimelia sem tryggði Georgíumönnum sigurinn sex mínútum fyrir leikslok en þessi sigur skilaði Georgíu í undanúrslit keppninnar. Hefðu liðin gert markalaust jafntefli þá hefðu Frakkar farið áfram en 1-1 jafntefli hefði skilað íslenska liðinu í undanúrslitin. Það gat því allt gerst.

Þjóðverjar unnu 3-0 sigur á Frökkum í hinum leik riðilsins og enduðu með fullt hús stiga. Georgíumenn voru með fjögur stig, Frakkar fengu tvö stig og íslenska liðið rak lestina með eitt stig.

Ef íslensku strákunum hefði tekist að jafna leikinn þá hefðu Ísland, Frakkland og Georgía öll verið jöfn að stigum. Ísland og Frakkland væru þá með jafnan og bestan árangur í innbyrðisleikjum liðanna þriggja en Ísland hefði farið áfram á betri markatölu í öllum leikjum riðilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×